Aðalheiður Jóna Guðmundsdóttir fæddist í Reykjavík 2. júní 1922. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Eir 14. maí 2011. Foreldrar Aðalheiðar voru Júlíana Sveinsdóttir, húsmóðir, f. 30.1. 1886, d. 4.11. 1967 og Guðmundur Jónsson, kaupmaður og stofnandi verslunarinnar Brynju við Laugaveg, f. 1.9. 1888, d. 18.7. 1955. Systkini hennar voru Ástríður Anna, f. 1917, d. 1944, Guðmundur Svavar, f. 1918, d. 1974, Þórey Kristín, f. 1919, d. 2006, Fanney Lilja, f. 1923, d.1995. Hálfbróðir Aðalheiðar, sammæðra, var Sveinn Jónsson, f. 1910, d. 1977, og samfeðra hálfsystir Lára Guðmundsdóttir, f. 1915, d. 1990. Aðalheiður giftist 17.5. 1941 Sveini Sigurði Einarssyni, vélaverkfræðingi, sem síðustu 15 árin starfaði sem sérfræðingur og ráðgjafi um jarðhitarannsóknir og vinnslu hjá SÞ, f. 9.11. 1915, d.19.6. 1988. Foreldrar hans voru Einar Sveinsson, bóndi á Leirá í Borgarfirði, f. 8.7. 1873, d. 16.6. 1950 og Þórdís Guðmundsdóttir, húsmóðir, f. 18.11. 1875, d. 27.11. 1947. Börn Aðalheiðar og Sveins eru: 1) Einar, útgefandi í El Salvador, f. 28.3. 1945. Var kvæntur Sigríði Loftsdóttur, þau skildu. Þau eiga dótturina Ásthildi Ósk, sem búsett er í Honduras og gift Mauricio Molina. Dóttir þeirra er Nicole. Auk þess er dóttir Einars, Aðalheiður Björg, búsett í Stavanger gift Jóhanni Bessa Ólafssyni. Börn þeirra eru Dagur Valberg og Þórdís Ólöf. 2) Anna Júlíana, óperusöngkona og söngkennari, f. 7.10. 1949, gift Rafni Alexander Sigurðssyni, framkvæmdastjóra. Þeirra börn eru Svanheiður Lóa, Anna Þórdís og Sveinn Sigurður. Sonur Svanheiðar og sambýlismanns hennar, Gunnars Mýrdal, er Rafn Alexander 3) Margrét Jóhanna Heinreksdóttir, lögfræðingur, f. 1.4. 1936, kjördóttir og systurdóttir Aðalheiðar. Var gift Oddi Bjarnasyni lækni, þau skildu. Börn þeirra eru a) Anna Heiður, maki Michael D. Ford, d. 25. maí 2010. Börn þeirra eru Fjóna Fransiska og Alexandra Ýrr. Sonur Mikes af fyrra hjónabandi er Justin Ford. b) Embla Eir, var gift Steve Mark Francis, þau skildu. Sonur þeirra er Róbert Tandri. Aðalheiður ólst upp í Reykjavík. Hún stundaði verslunarnám í Kaupmannahöfn 1938-1939. Síðar stundaði hún söngnám á Íslandi, við Mozartteum í Salzburg, í München og í New York. Aðalheiður söng með ýmsum kórum og hélt tónleika hér heima og erlendis. Hún var fyrsti formaður söngsveitarinnar Fílharmoníu. Aðalheiður gegndi húsmóðurstörfum hér heima og erlendis. Eftir nokkurra ára búsetu á Hjalteyri við Eyjafjörð og dvöl í Bandaríkjunum fluttust þau í Kópavog þar sem hún tók virkan þátt í bæjarmálum, var m.a. formaður Kvenfélagsins Eddu og sat í fulltrúaráði Reykjaneskjördæmis. Frá 1969 til ársins 1984 dvöldust þau erlendis á vegum SÞ, í Mið-Ameríkuríkjunum El Salvador, Honduras og Nicaragua og síðustu árin í New York. Útför Aðalheiðar fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 24. maí 2011, og hefst athöfnin kl. 13.

Lokið er langri og litríkri ævi Aðalheiðar Guðmundsdóttur, sem vandamenn og vinir jafnan kölluðu Heiðu. Þegar yfir lauk vantaði hana rúmt ár til að ná níræðisaldri. Síðustu árin hafði hún háð harða baráttu við sjúkdóminn Alzheimer, sem undir lokin varnaði henni máls og máttar til að tjá þær hugsanir sem sjá mátti að bærðust með henni.  Því voru endalokin líkn frá þraut.

Aðalheiði gáfust miklar og stórar gjafir í lífinu og hún gaf sjálf mikið, var að eðlisfari örgeðja og örlát og deildi gjarnan með öðrum eigin lífsgæðum og tilfinningum, í sorg sem í gleði. Hún var einstaklega falleg kona, gædd skarpri greind, giftist ung glæsilegum, vel menntuðum manni, sem ætíð mat hana að verðleikum og eignaðist með honum tvö yndisleg börn - fyrir utan að ala upp frá átta ára aldri og ættleiða síðan systurdóttur sína, undirritaða, eftir fráfall móður minnar frá þrem börnum; hún var þá aðeins 26 ára.

Heiða varð snemma heimsborgari; hleypti heimdraganum ung að árum og var opin fyrir nýjum áhrifum og hugmyndum. Hún hafði sterka sjálfsbjargarviðleitni og  sjálfsmynd og nægilegt sjálfstraust til að mynda sér sjálfstæðar skoðanir, halda þeim til streitu og  ganga gegn viðteknum venjum þegar hún taldi þær rangar. Hún átti stundum til að sífra út af smámunum en var sterk í andstreymi og máttarstólpi sínum nánustu þegar á móti blés. Hjúkrunarkona hefði Heiða orðið góð því engan var betra að hafa hjá sér í veikindum, en húsmóðurstarfið var henni ætlað og því sinnti hún með prýði. Hún bjó fjölskyldunni  einatt falleg heimili, bæði heima og erlendis þar sem hún dvaldist langdvölum með eiginmanni sínum, Sveini Einarssyni, verkfræðingi. Hann var menntaður sem vélaverkfræðingur og starfaði framan af sem slíkur en sneri sér síðan  að jarðhitamálum og varð með fremstu sérfræðingum á því sviði. Hann endaði feril sinn hjá Sameinuðu þjóðunum, vann þar í fimmtán ár sem sérfræðingur í jarðhitarannsóknum og vinnslu.

Þau Heiða og Sveinn kynntust í Kaupmannahöfn skömmu fyrir heimstyrjöldina síðari. Hann hafði hlotið styrk til háskólanáms í verkfræði en hún stundaði nám í skrifstofustörfum. Þau komu þaðan heim hvort í sínu lagi, Sveinn rétt slapp heim um Petsamo, þá í Finnlandi, áður en tók fyrir allar samgöngur heim. Brúðkaup þeirra var gert vorið 1941 í húsi afa og ömmu í Skerjafirðinum  og er mér mjög svo minnisstætt; fannst það afar hátíðlegt og rómantískt en líka vegna þess að Heiða datt með mig í stiga hússins að morgni dagsins og tognaði á ökkla. Þá varð foreldrunum eftirminnilega um og ó, þegar Heiða tilkynnti prestinum, að hún gæti ekki fallist á það sem segði í vígslutextanum að hún ætti að verða eiginmanni sínum undirgefin. Hann tók því bara vel og minntist ekki á það einu orði. Sjálfstæðisyfirlýsing þessi var athyglisverð á þessum tíma en þrátt fyrir hana réði starfsferill Sveins lífi þeirra í stórum dráttum; Heiða sinnti sínum áhugamálum eingöngu þegar færi gafst frá skyldum við hann og heimilið en naut þá fyllsta stuðnings hans.

Fyrsta heimili þeirra var við Njarðargötu í Reykjavík, en fljótlega lá leiðin til Hjalteyrar við Eyjafjörð þar sem Sveinn tók við stjórn síldarverksmiðjunnar þar. Síðan dvöldust þau í Bandaríkjunum á annað ár, þar sem Sveinn annaðist leit og kaup á vélum fyrir fyrirtækið Kveldúlf og komu ekki aftur til landsins fyrr en 31. mars 1944, þá með Dettifossi í skipalest sem umkringd var kafbátum og tundurskeytum. Móðir mín hafði látist þá skömmu áður og því ákveðið að ég færi til þeirra. Er mér enn í minni fyrsta flugferðin til Akureyrar  rétt fyrir lýðveldishátíðina - og ævintýraferðin út með Eyjafirði þar sem síldarskipin lágu í tugatali undan ströndinni, bíðandi eftir löndun drekkhlaðin síld.

Á  síldarárunum á Hjalteyri var fjörugt og fjölmennt á sumrin. Var þá gestkvæmt mjög á heimili Heiðu og Sveins, vinir, kunningjar og aðrir, sem erindi áttu við Svein vegna verksmiðjunnar, streymdu hvaðanæva að. Á vetrum hinsvegar fámennt og  fátt við að vera fyrir fullorðna fólkið en við börnin undum okkur vel við gerð snjókarla og snjóhúsa eða að renna okkur á skíðum, sleðum og skautum. Rafmagn var oft takmarkað, símasamband stopult, útvarpsskilyrði  ekki upp á marga fiska, hvorki hljóðfæri né hljómtæki og því helsta dægurdvölin að lesa og tefla þegar tækifæri gáfust til. Á því svelli var Heiða býsna seig; hafði lært af bróður sínum, Guðmundi, sem var með bestu íslensku skákmönnum þess tíma og átti eftir að tefla á alþjóðamóti í Hastings með góðum árangri. Á vetrum var engin verslun nema á Akureyri en samgöngur oft erfiðar vegna snjóa og ófærðar. Heiða var líklega ein af fáum ef ekki eina konan á svæðinu sem hafði ökuréttindi og reyndist afbragðs bílstjóri við erfiðustu aðstæður, í hríðarbyljum og  hálku á vegum en stundum þurfti  að fara á trillubáti eftir vistum. Þetta voru mikil viðbrigði ungri konu sem vön var margmenni og menningarlífi í Reykjavík, Kaupmannahöfn og New York. Sveinn þurfti oft til Reykjavíkur og útlanda vegna starfs síns og þá sat Heiða eftir, fyrst með mig eina en í marslok 1945 fæddist frumburðurinn langþráði, Einar, við mikinn fögnuð.

Haustið 1949, rétt fyrir fæðingu yngra barns þeirra, Önnu Júlíönu, fluttist fjölskyldan aftur suður til Reykjavíkur og við tók venjulegt smáborgarlíf, þar sem misgóður fjárhagur en jafnframt tónleikar, leikhús, söngur og stjórnmál urðu ráðandi þættir hvunndagsins. Þau tóku virkan þátt í starfi sjálfstæðismanna í Kópavogi þar sem þá réðu ríkjum Hulda og Finnbogi Rútur Valdimarsson, en hann og Hannibal, bróðir hans voru reyndar kunningjar Sveins og foreldra hans. Sveinn sat á Alþingi um hríð en fræðin voru honum ætíð meiri ástríða en stjórnmálin, hann hafði mikinn áhuga á rafmagnsframleiðslu með jarðhita og fékk því loks framgengt að jarðvarmarafstöðin í Bjarnarflagi í Mývatnssveit var gerð í tilraunaskyni.

Árið 1969 hófst svo ferill Sveins  hjá Sameinuðu þjóðunum og fluttust þau þá til Mið Ameríku, fyrst til El Salvador, þar sem hann hafði m.a. umsjón með byggingu stórrar jarðvarmarafstöðvar, þá Nicaragua og loks Hondúras, þá orðinn yfirmaður jarðhitamála í löndunum öllum, líka Costa Rica og Guatemala.  Þessi ár var líf þeirra ennþá lærdóms og viðburðaríkt; þau kynntust samfélagsólgunni gegn skelfilegri stéttaskiptingu og hernaðareinræði, jarðskjálftum og borgarastyrjöld, fellibyljum og flóðum. Starfsferli Sveins lauk í aðalstöðvum SÞ í New York en þó ferðaðist hann víða um heiminn vegna starfsins þar til hann varð sjötugur og ekki mátti halda honum þar lengur vegna aldurs.

Heiða var afskaplega lífleg og félagslynd kona. Hún var vel máli farin og ekki aðeins á eigin máli, heldur og á dönsku, ensku, þýsku og spænsku;  bæði nutu þau þess að gera sér glaðan dag með góðum gestum, löndum sínum sem erlendum,  enda á heimilinu tíðum skemmtilegar umræður um stjórnmál, íslensk sem alþjóðamál, kvenréttindamál og listir og þó umfram allt söng því að söngur var hennar líf og yndi.  Á heimili foreldranna hafði jafnan verið mikið sungið. Systkinin voru sex talsins og þegar þau voru saman komin ásamt vinum og síðar mökum var oft  glatt á hjalla. Sjálf minnist ég jólanna hjá ömmu og afa í Skerfjafirðinum,  þegar stórfjölskyldan, þrjár kynslóðir, kom þar saman og söng jólasálma eftir að afi hafði lesið jólaguðspjallið. Eftir fráfall móður minnar, sem gjarnan annaðist undirleik á píanóið, fékk sá söngur á sig meiri tregabrag og glitruðu þá gjarnan tár á hvörmum.  Hún hafði verið elst systranna, sterk stoð fjölskyldunni allri og með þeim Heiðu ætíð afar kært. Því var það, að hún hafði frumkvæði að því að taka mig að sér.

Snemma kom í ljós að Heiða hafði fengið í vöggugjöf mikla og bjarta sópransöngrödd,  sem því miður var þó ekki  lögð rækt við fyrr en hún um þrítugt fór að syngja með kórum undir stjórn hins mikilhæfa tónlistarmanns og kórstjóra, Róberts A. Ottóssonar, fyrst  Samkór Reykjavíkur og síðan Fílharmoníukórnum. Það var mest fyrir hvatningu hans að hún fór að sækja sér kennslu í söng, fyrst hér heima og síðan erlendis þó var það nám aðeins nokkurra vikna eða mánaða námskeið í senn. Ekki vantaði þó vandlætingu sumra sem töldu hana vanrækja eiginmann, heimili og börn en hún naut óskoraðs stuðnings allrar fjölskyldunnar, sem fylgdist með framförum hennar af áhuga. Sveinn hafði lært svolítið á orgel á yngri árum og lék oft undir söng hennar. Þá var okkur börnunum heldur ekki amalegt veganesti að alast upp við ljóða - og  óperusöng, íslensku fjárlögin og sönglög Sigfúsar Halldórssonar í bland við Schubert, Schumann, Grieg, Hugo Wolf og svo kórraddirnar og einsöngsþættina úr verkunum sem kórinn var að æfa hverju sinni - að ógleymdum sinfóníum, óratoríum, messum og mótettum þegar þau eignuðust góð hljómtæki. Eftir að þau hjón fluttu til Mið-Ameríku og allt til loka dvalarinnar í New York hélt Heiða áfram að vinna með rödd sína og syngja með listamönnum frá ýmsum þjóðum. Einnig var hún virk í ýmiss konar fjölþjóðlegu félagsstarfi, lék í nokkrum leikritum, hélt söngtónleika og í New York safnaði hún saman í lítinn kór þeim Íslendingum sem til náðist.

Það varð Heiðu mikið áfall þegar Sveinn féll frá 19. Júní 1988. Hún hafði átt von á að eyða með honum elliárunum í ró og næði eftir langan og strangan vinnudag hans sem skildi þau svo oft að en sú von brást. Hún lét það þó ekki buga sig heldur lifði síðustu tuttugu árin fyrir fjölskyldu sína, börnin og barnabörnin heima og erlendis -  og loks yngsta barnabarnabarnið, sem varð eins og síðasti ljósgeislinn í lífi hennar áður en sjúkdómurinn svipti hana máli. Síðustu orðin sem hún gat sagt svo að skildist voru: Litla barnið, litla barnið.

Ég kveð Heiðu mína með miklu þakklæti fyrir samfylgdina í sjötíu og fimm ár. Afskipti hennar af mér hófust þegar hún var látin gæta mín í vöggu, þá þrettán ára unglingur og síðan í vagni, kerru og beisli - uns örlögin höguðu því svo að hún gekk mér í móður stað. Þar sem ég var þá orðin svo stálpuð og hafði svo lengi kallað hana Heiðu breyttist það ekki enda ekki nema þrettán ár á milli okkar og við því fremur eins og systur og vinkonur þegar árin færðust yfir báðar.  Kær minning hennar mun lifa skært með þeim sem hana þekktu  og verða fjölskyldunni huggun harmi gegn.

19. maí  2011

Margrét Heinreksdóttir.