Gísli Sigurðsson fæddist 16. nóvember 1935. Hann lést 29. nóvember 2023 á Hjúkrunarheimilinu Dyngju á Egilsstöðum.

Foreldrar hans voru Margrét Gísladóttir og Sigurður Einarsson.

Eftirlifandi eiginkona Gísla er Heiða Elín Aðalsteinsdóttir, f. 18. apríl 1937. Börn þeirra eru: 1) Hrafnhildur, hennar maki er Sigurður Lúther Björgvinsson og eiga þau fimm börn. 2) Margrét, hennar maki er Ágúst Ólafsson og eiga þau þrjú börn. 3) Aðalsteinn, hans maki er Regína Þorkelsdóttir og eiga þau saman tvö börn. 4) Sigurður, hans maki er Aðalbjörg Þorvarðardóttir og eiga þau þrjú börn. 5) Þórunn Brynja, hennar maki er Smári Hlíðberg Guðþórsson og eiga þau þrjú börn. Barnabörn Gísla og Heiðu eru því 16 og eru langömmubörnin orðin 20.

Gísli starfaði til fjölda ára sem línuverkstjóri hjá Rarik og þar áður sem húsamálari. Gísli var stofnfélagi Lionsklúbbsins Múla á Egilsstöðum og var klúbburinn hans hjartans mál alla tíð. Hann vann mikið og óeigingjarnt starf í velferðarmálum sem Múli styrkti.

Útför fer fram frá Egilsstaðakirkju í dag, 9. desember 2033, klukkan 14.

Streymi frá útför:

mbl.is/go/rkbsq

Fallinn er frá tengdafaðir og vinur, Gísli Sigurðsson, sem fæddur var 16. nóvember 1935 og dáinn 29. nóvember 2023.

Ég sá Gísla málara fyrst árið sem ég flutti frá Reykjavík ásamt fjölskyldu minni til Egilsstaða 1966, en við fluttum vegna póstmeistaraskipta, en hann var þá að mála ásamt Stefáni Pálssyni símstöðina að innan.
Ég var ekki mikið að pæla í eldra fólkinu á þessum árum en tók þó strax eftir háum og myndarlegum sterklegum manni sem var þarna að mála og hét Gísli Sigurðsson, þá vissi ég ekki að þarna væri tilvonandi tengdafaðir minn á ferð aðeins sjö árum seinna.
Þegar ég svo kynnist Hrafnhildi, dóttur Gísla, og kvænist síðan 1976, myndaðist strax sterkt samband milli okkar, sem haldist hefur ágætt í 50 ár.
Þess má geta að frumburður okkar Hrafnhildar var auðvitað skírður Gísli.
Þegar ég svo tengdist fjölskyldunni hafði Gísli söðlað um og var hættur í málningunni og hafði ráðið sig til Rafmagnsveitna ríkisins sem verkstjóri yfir línuflokkum RARIK.
Gísli var ánægður á nýjum vinnustað og vann hann ávallt á sama stað eða til starfsloka er hann varð 70 ára. Gísli var ávallt vel liðinn og þótti góður verkstjóri.
Gísli var ekki margmáll maður að eðlisfari og var ekki að tala neitt mikið í kringum hlutina, heldur sagði nokkrar stuttar og hnitmiðaðar setningar, svona skulum við gera þetta og vildi að hlutirnir gengju hratt og fljótt fyrir sig.
Gísli var fjölskyldumaður mikill og vildi hafa hana nálægt sér til að geta fylgst með sínu fólki.
Hrafnhildur og ég fluttum til Reykjavíkur árið 1977 þar sem við fórum að mennta okkur og ætluðum að stoppa stutt við í henni Reykjavík en árin urðu 16, en eftir það byrjuðum við að venja komur okkar austur á Lagarásinn að verja tíma saman.
Alltaf var tekið vel á móti okkur af þeim hjónum, Heiðu og Gísla, og á veisluborðið var sett hangikjöt, hryggur eða læri sem Heiða setti fram af sinni alkunnu snilld.
Við Gísli áttum það sameiginlegt að vera miklir matmenn og töluðum mikið saman um mat og það var eitt sinn sem við vorum í Munaðarnesi þar sem við dvöldum með börnum okkar ásamt Gísla og Heiðu í vikutíma að ég kom með stórt lambalæri sem grillað var í grafinni holu, í botninn voru settar steinflísar, síðan grillkol sem kveikt var í, lærinu pakkað í álpappír og síðan sett torf yfir og leist Gísla ekki á þetta athæfi hjá tengdasyni sínum allt þar til hann var búin að fá sér fyrsta bitann.
Hér eftir treysti hann tengdasyni sínum alveg fyrir því að grilla og þegar ég var í heimsóknarferð hjá honum núna í haust minntist hann á þetta góða lambalæri með miklum hlýhug.

Gísli var góður tengdapabbi og afi barnanna okkar Hrafnhildar, hann vildi allt fyrir þau gera, enda hændust börnin að honum og hann að þeim.
Ég og Gísli áttum bæði húmor og skap saman og gerðum báðir góðlátlegt grín hvor að öðrum, sérstaklega þegar við vorum að vinna eitthvað saman eins og í garðinum eða í húsinu eða að ná í steina upp í Skriðdal fyrir garðinn hennar Heiðu.
Að endingu vil ég, Gísli minn, að þú takir með þér yfir í blómabrekkuna dægurlagatexta með laginu sem þú söngst oft og iðulega þegar gaman var hjá okkur strákunum.

Fögur voru fjöllin hér,
fram í dalnum léku sér
marga æskuunaðsstund
yngissveinn og fögur sprund.
x
Hlupu frjáls um holt og mó,
höfðu í blómalautum skjól,
bundu kransa brostu eins
og blóm við sól.
x
Bjartir lokkar léku í
ljósi sólar dægrin löng.
Þá var ástin ljóðrænt lag
er lífið söng.
x
Fegurð enn í fjöllum býr,
faðmur dalsins grænn og hlýr.
Sveinar enn þar fara á fund
við fögur sprund.
(Guðmundur Þórðarson)



Vildi bara segja þér það hvað ég er þakklátur fyrir að hafa átt þig sem tengdaföður, föður konunnar minnar, afa barnanna okkar og langafa barnabarnanna okkar.

Ég vil nota þetta tækifæri til þess að votta þér, Heiða Elín, og börnum þínum, barnabörnum og barnabarnabörnum mína dýpstu samúð.

Sigurður L. Björgvinsson.