Martin Winkler fæddist 17. nóvember 1932 í Thalgau í Austurríki. Hann lést 20. nóvember 2023 á hjúkrunarheimilinu Lundi, Hellu.

Foreldrar hans voru Johann Winkler bóndi, f. 20.12. 1896, d. 1934, og Johanna Papst Winkler húsmóðir, f. 16.5. 1898, d. 1976.

Systkini Martins voru: Hansi, f. 1921, d. 1922; Johann, f. 1922, d. 1939; Johanna, f. 1924, d. 1945; Alois, f. 1926, d. 1948; Josef, f. 1927, d. 2010; Peter, f. 1929, d. 1984; og Anni, f. 1930, d. 2015.

Martin giftist 10. desember 1966 Sigþrúði Jónsdóttur, f. 29.12. 1929, d. 14.6. 1999, frá Fagurhólsmýri í Öræfum. Foreldrar hennar voru Guðný Aradóttir húsmóðir, f. 2.7. 1891, d. 15.11. 1976, og Jón Jónsson bóndi á Fagurhólsmýri, f. 8.2. 1886, d. 4.3. 1976.

Dætur Martins og Sigþrúðar eru: 1) Ágústa Sigríður, f. 6.1. 1956, maki Sturlaugur Tómasson, f. 12.10. 1955. Börn þeirra eru: Rán, f. 13.4. 1977, og Tómas, f. 28.5. 1981. 2) Hanna Björg, f. 21.9. 1962, maki Gunnlaugur Briem, f. 27.8. 1960. Synir þeirra eru: a) Marteinn f. 10.7. 1989, maki Edda Björg Bjarnadóttir, börn þeirra eru: Bjarni Valgarð, f. 2017, og Sigurður Bent, f. 2020, og b) Jón Arnar, f. 31.5. 1991. 3) Ragnheiður Margrét, f. 29.5. 1969, maki Guðbjarni Guðmundsson, f. 2.5. 1968. Börn þeirra eru: a) Guðmundur, f. 16.12. 1996, b) Telma Sigþrúður, f. 26.4. 1999, unnusti Þorgils Sigurðsson, c) Hildur, f. 3.6. 2004.

Martin ólst upp í Thalgau, nágrannabæ Salzburg, í síðari heimsstyrjöldinni. Hann lærði húsgagnasmíði og fór ungur að heiman í atvinnuleit. Hann ferðaðist víða og lá leið hans m.a. til Íslands þar sem hann kynntist eiginkonu sinni Sigþrúði. Martin starfaði við smíðar m.a. hjá Gamla Kompaníinu, Sigurði Elíassyni og verkstæði Landspítalans þar til hann lauk störfum.

Útför Martins fer fram frá Guðríðarkirkju í Reykjavík í dag, 11. desember 2023, klukkan 14.

Martin Winkler tengdafaðir minn hefur kvatt þessa jarðvist, nýorðinn 91 árs gamall. Hann átti viðburðaríka ævi. Hann ræddi lengi fátt um æsku sína en það mátti skynja á honum í seinni tíð að hún var erfið. Móðir hans varð ung ekkja og ól upp stóran barnahóp þar sem Martin var yngstur. Lífsbaráttan var hörð og hann mátti sem barn í seinni heimsstyrjöld sjá á bak eldri systkinum og leita skjóls í loftárásum Bandaríkjanna á bæinn hans í Austurríki. Að stríðinu loknu var litla vinnu að hafa og beita þurfti útsjónarsemi og iðjusemi til að hafa í sig og á. Þessi reynsla mótaði gildi hans og viðhorf til lífstíðar.

Farandvinna færði hann til Íslands á seinni hluta 6. áratugarins. Hann kynnist þá Diddu og þau fella hugi saman og hefja búskap. Fyrst í Stóragerði en þó lengst af í Hraunbæ 98. Fljótlega eru dæturnar orðnar þrjár. Vinnudagurinn var oft langur og aukavinnan drjúg, enda Martin eftirsóttur til smíðastarfa vegna færni sinnar og vinnusemi. Og lausar stundir nýttar í veiðiskap og draga á ýmsan hátt björg í bú.

Martin ásamt fjölskyldu sinni hélt lengst af hesta eða allt frá um 1960 þar til Krummi gamli var felldur fyrir fáum árum, síðastur margra eftirminnilegra hesta hans. Og í hestamennskunni kynnist ég honum fyrst en fjölskylda mín og Martins áttu hesthús í sömu lengju í Víðidalnum. Æxlaðist svo að ég keypti af honum minn fyrsta hest, Sörla, fyrir fermingarpeningana mína eða 35.000 gamlar krónur. Reyndust það góð kaup fyrir mig, klárinn reyndist afskaplega vel og hlaut í lokin legstað á Dvergabakka.

Árið 1977 keyptu þau Didda spildu úr landi Króks í Ásahreppi sem þau nefndu Dvergabakka. Þar byggðu þau af miklum myndarleik á næstu árum íbúðarhús, hesthús, bílskúr og tvö smærri hús. Fóru nær allar lausar stundir og aurar í þessa uppbyggingu. Allt gert af natni og nákvæmni þeirri sem þeim báðum var í blóð borin, og einskærri vinnusemi. Þau ræktuðu upp tún og heyjuðu fyrir hestana, og stunduðu mikla garðrækt sem við ættingjar nutum góðs af við heimsóknir, og þar höfðu þau hestana á sumrin og í haustbeit.

Þau Didda tóku mér vel þegar ég fór að gera hosur mínar grænar fyrir Hönnu þótt vissulega fyndi maður fyrir því að fylgst væri með málum. Martin hjálpaði mér að velja morgungjöfina, folald undan Tígli hans sem við nefndum Roða og reyndist okkur líka vel. Ófá skiptin fengu síðar strákarnir okkar að gista hjá þeim á Dvergabakka, næturlangt eða lengur, í mjög góðu atlæti. Var þá margt forvitnilegt að sjá og fá að fylgjast með afa í smíðavinnu og búskapnum, sem sagt svar síðan frá með aðdáun við heimkomu.

Í ófá skiptin naut ég hjálpar og leiðbeininga hans við smíðar og viðgerðir. Allt skyldi vera vandað og vel unnið, og þá ekki alltaf auðvelt að vera tengdasonur með tóma þumalfingur. Hann átti ógrynni af ýmsum smíðaverkfærum og mörg húsgögn á heimili hans og ættingja báru vandvirkni hans og kunnáttu gott vitni. Hann bar umhyggju fyrir sínu fólki, það duldist engum, og fylgdist með þroska og framgangi barnabarna sinna. Hann ræktaði líka sambönd við fjölskyldu sína í Austurríki, bæði með símtölum og heimsóknum.

Martin hafði jafnan sterkar skoðanir á þeim málefnum sem voru efst á baugi hverju sinni. Og lá ekkert á þeim í samtölum við fólk. Tók hann jafnan upp hanskann fyrir litla manninn, fyrir bændur og síðar fyrir gamla fólkið, og varði málstað þeirra af miklum krafti. Og bar stundum þungar sakir á þá eða þau öfl sem að þeim sóttu, stundum svo hart að manni þótti nóg um.

Martin kunni margar sögur af sínum ferðum og lífsferli, og þurfti ekki að hvetja hann mikið til að hefja frásögn. Ógleymanlegar eru frásagnir hans af mótorhjólaferðum á yngri árum, veiðiferðum til sjós og fjalla, og hestaferðum. Hann kunni vel að segja frá og var hreint með ólíkindum hvaða háska hann hafði lent í eða hversu mikils honum tókst að afla, svo mikið að á stundum virtist sem sannleikurinn hefði þurft undan að víkja í frásagnargleðinni. Og kæmi það fyrir að sagan þætti ekki alveg trúverðug, eða áheyrendum þætti hún ríkulegri en við síðustu frásögn, var stutt í brosið og glettnina í augum hans. Því glaðlyndur var hann og kunni sannarlega að gleðjast í góðra vina hópi. Var því oft glatt á hjalla við stofuborðið á Dvergabakka.

Lengst af naut Martin góðrar heilsu. Þó reyndust síðustu árin honum nokkuð erfið, þegar hugurinn vildi en skrokkurinn ekki. Var það þessum mikla verkmanni þungt að una. Nú er þeirri þrautagöngu lokið og þau Didda sameinuð á ný. Að leiðarlokum vil ég votta honum virðingu mína og einlægt þakklæti.


Blessuð sé minning Martins Winkler.

Gunnlaugur Briem.

Jæja pabbi minn. Þá er stríðri lokalotu lokið milli þín og lífsins. Öll töpum við henni hvað sem lífsviljinn er sterkur. Hann hafðir þú ríkulegan þrátt fyrir ýmis áföll í lífinu.

Byrjun lífs þíns var þér ungum hörð, það var harka og barátta um brauð sem gilti á mótunarárum þínum. Þá sjaldan sem þú sagðir glefsur frá þessum tíma kom það glögglega fram. Þú áttir erfitt með að tala um hann. Á þessum tíma tíðkaðist ekki að vinna úr áföllum hvorki barna né fullorðinna. Þau fylgdu þér gegnum lífið.

Alltaf minntistu mömmu þinnar með ást og hlýju þegar þú lýstir baráttu hennar við að halda utanum barnahópinn sinn en hún missti nokkra úr honum og einnig pabba þinn í hramma styrjalda. Þú lífsglaður og mannblendinn þrátt fyrir áföllin komst þér til manns.

Þig bar til Íslands í atvinnuleit þar sem leiðir ykkar mömmu skárust og stofnuðuð fjölskyldu. Samhent voruð þið, hefðbundin verkaskipting þess tíma var á ykkar heimili, við fjáröflun og uppeldi þriggja dætra.

Bernskuminning, þú kemur seint heim að kvöldi búinn að járna fleiri, fleiri hurðir í dagvinnunni alltaf í akkorði og svo að setja þær í langt fram á kvöld í nýbyggingar. Ég lærði snemma orðin, járna hurðir, lamir, akkorð í tengslum við vinnuna þína. Og þið mamma settust niður yfir tebolla og spjalli fyrir svefninn

Náttúran skipaði stóran sess í lífinu. Þú varst alltaf tilbúinn í ævintýri og treystir alltaf á sjálfan þig. Fátt ef nokkuð var ómögulegt. Fjöllin og öll náttúran heima í Austurríki voru stórkostleg, stundaðir fjallgöngur og skíði fyrir Íslandsferð.

Hingað kominn varstu staðráðinn í að njóta þess sem náttúran hér bauð uppá. Þú keyptir þér hest og folald fyrir mig. Svo fórum við á hestbak, þú sast hestinn, að temja, ég hljóp á eftir með folaldið í taumi, upp og niður Blesugróf! Þannig byrjaði dýrahaldið í fjölskyldunni. Það óx með tímanum eftir því sem börnunum fjölgaði, allir áttu sinn hest. Það var hark að halda hross í Reykjavík á þessum tíma. Ég man að þú heyjaðir bleðla í Reykjavík og til þess lærðir þú að slá með orfi og ljá. Mamma og Guðjón mágur þinn voru kennararnir.

Veiðiskapur ýmiss fannst þér áhugaverður. Keyptir ásamt félögum trillu og þið veidduð fisk og fugl hér á flóanum. Mér fannst nú grásleppan aldrei góð en þú vissir það!

Svo kom Dvergabakki. Mikið voruð þið mamma hamingjusöm að eignast athvarf í sveitinni. Þar byggðuð þið ykkur hús og ræktuðuð jörðina fyrir skepnur og menn. Börnin mín fengu eigin skika og nutu leiðsagnar ykkar mömmu við umhirðu plantna og ræktun.

Við fráfall mömmu vængbrotnaðir þú. Áfram hélt lífið og af forvitni og áhuga fórstu að nýta afurðir Dvergabakka með því að sulta, sjóða niður grænmeti og búa til saft. Sjálfstæði og að vera sjálfbjarga var þér alltaf mikilvægt. Þegar maður kom til þín vildirðu alltaf gefa manni eitthvað af afurðunum með heim.

Þú varst heimakær og sístarfandi að þínum hugðarefnum hvort sem það var ræktun, nýsmíðar, viðhald eða dýraumhirða. Alltaf snyrtilegt í kringum þig og allt á sínum stað. Ef ég var að aðstoða þig við verkefni var ég yfrleitt óþolinmóð yfir því hvað undirbúningurinn fyrir verkefnið tók langan tíma. Mér fannst við geta klárað það á þeim tíma sem það tók að undirbúa það! En undirbúningurinn borgaði sig alltaf, verkið vannst hraðar. Vandvirkni þín sást allsstaðar í því sem þú gerðir.

Þegar þú varst hættur að njóta útreiða fékkstu þér nokkrar kindur. Með dyggri aðstoð elskulegra nágranna sem af gæsku sinni og óeigingirni leiðbeindu þér með fjárbúskapinn og aðstoðuðu þig á ýmsa lund gastu notið þess að halda þær í nokkur ár. Þökk sé þeim.

Elsku pabbi. Síðastliðið ár var þér erfitt. Þú þurftir að yfirgefa kæran Dvergabakka þegar heilsan var alveg búin og ellikarlinn tók völdin. Dvalarheimilið Lundur tók vel á móti þér fyrir ári síðan og hélt utan um þig til síðasta dags og vil ég þakka þeim fyrir að styðja við reisn þína og sjálfstæði allt til loka.

Vertu blessaður og sæll pabbi minn, hvíldu í friði. Auf wiedersehen


Ágústa.