Halldór Vilhjálmsson fæddist 9. september 1933 á Seyðisfirði. Hann lést í Reykjavík 25. desember 2023.

Foreldrar Halldórs voru Vilhjálmur Jónsson, framkvæmdastjóri á Seyðisfirði, f. 11. mars 1899, d. 22. ágúst 1981, og kona hans, Guðlaug Pálsdóttir húsfreyja, f. 12. maí 1900, d. 22. ágúst 1968.

Systkini Halldórs voru Guðrún Pálína, f. 1919, d. 1983, Ingibjörg, f. 1923, d. 2005, Einar Jón, f. 1928, d. 2022, og Hörður, f. 1930, d. 2022.

Eftirlifandi eiginkona Halldórs er Alevtina Druzina, f. 1938. Þau giftu sig í Leníngrad árið 1972.


Dóttir Alevtinu og stjúpdóttir Halldórs er Tanya Zharov, f. 1966, eiginmaður hennar er Lárus Jóhannesson, f. 1964. Börn þeirra eru Mikael Jóhannes, f. 2001, Katrín Anna, f. 2002, og Sofia Lára, f. 2007.


Börn Halldórs og Alevtinu eru: 1) Nathalía, f. 1974, eiginmaður hennar er Ingi Rafn Ólafsson, f. 1971. Börn þeirra eru Elísabet, f. 2001, Pétur Óli, f. 2007 og Halldór Ari, f. 2010. 2) Hlín, f. 1978, eiginmaður hennar er Gylfi Gylfason, f. 1977. Sonur þeirra er Garpur, f. 2005. 3) Valþór, f. 1978, eiginkona hans er Ásdís Jörundsdóttir, f. 1979. Börn þeirra eru Freyja, f. 2014, og Magni, f. 2018.

Halldór fæddist á Seyðisfirði og ólst þar upp. Hann stundaði nám í þýsku, norsku og dönsku í Þýskalandi og við Háskóla Íslands. Halldór kenndi við MT 1970-1973 og við MR 1971-2002. Hann vann einnig við þýðingar á bókum og þýddi fjölda smásagna og greina fyrir blöð og tímarit. Í hjáverkum var hann stórtækur skógræktandi austur á fjörðum.

Útför Halldórs hefur farið fram í kyrrþey að ósk hins látna.

Meira á
https//mbl.is/andlat

Minningargreinar voru eitt af því fjölmarga sem við Halldór ræddum um á okkar eftirminnilegu samfundum. Ég get enn séð fyrir mér glottið á honum þegar hann stakk upp á því að ég skrifaði grein og ætti hana á lager tilbúna þegar kallið hans kæmi. Þegar ég fullur af hjátrú jesúsaði mig þá sé ég að hann hristist af hlátri. Ég lærði snemma á þennan einstaka húmor Halldórs og kunni vel að meta hann. Húmor Halldórs einkenndist oft af því að setja fram létt ögrandi athugasemd og fá við henni sterk viðbrögð frá viðmælanda. Þá var honum skemmt, hann var oftar en ekki fremur að skemmta sér sjálfum en öðrum, þetta gladdi mig þó ævinlega.

Halldór frænda umgekkst ég frá unga aldri og var samgangur mikill við okkur á Brúarlandi og foreldra mína meðan þau voru á lífi. Halldór var eins konar vorboði þegar hann kom austur á sumrin til dvalar í Lagarfellinu, alltaf virðulegur hvort heldur sem var í fasi eða klæðaburði, sennilega sá síðasti sem maður heyrði nota þéringar í daglegu tali sem undirstrikuðu enn frekar virðuleikann.

Það var óvænt ánægja þegar við Björg hófum búskap og það uppgötvaðist að Björg hafði lært hjá Halldóri þýsku í MR og væri þar að auki frænka hans. Við vorum því þakklát á fyrsta búskaparári okkar þegar Halldór bauð okkur að vera í Lagarfellinu meðan við vorum að standsetja okkar íbúð.

Það má segja að Halldóri hafi verið margt til lista lagt en auk brennandi áhuga á garðyrkju og skógrækt þá var hann listrænn á marga vegu. Ég á enn virkilega góða vatnslitamynd sem hann málaði af mér fyrir rúmri hálfri öld. Halldór hafði sérlega góða rithönd og gat gert góða uppdrætti af listrænum smíðisgripum sem hann hafði næmt auga fyrir. Þar að auki spilaði Halldór á píanó og sér til dægrastyttingar hafði hann samið á það nokkur lög. Þá má ekki gleyma smásögunum sem hann tók til við að semja í ellinni, en ég varð þeirrar ánægju aðnjótandi að vera listrænn gagnrýnandi þar sem Halldór sendi mér gjarnan eintak til yfirlestrar. Halldór gat staðið fastur á sínu þegar honum þótti á sig hallað og sótti þá rétt sinn af krafti. Stóð því mörgum ekki á sama sem fyrir því urðu. Aldrei nokkru sinni sýndi hann mér eða mínu fólki þá hlið og bar aldrei skugga á vináttuna.

Menntun var eðlilega í miklum metum hjá Halldóri og fylgdist hann grannt með framgangi náms hjá börnum okkar fjórum og lét sér annt um þau. Náði hann að vera viðstaddur hjá þeim öllum við útskriftir.

Skógrækt og garðyrkja var okkar sameiginlega áhugamál og áttum við ófáa fundi, samræður og vísindaferðir þeim tengdar.

Skógrækt á jörð Halldórs Sörlastöðum í Seyðisfirði var honum afar hugleikin og eyddi hann þar ófáum stundum við gróðursetningu á ýmsum framandi trjá- og runnategundum. Á síðari árum var það samkomulag okkar á milli að ég yrði á vaktinni ef hann væri ekki kominn heim úr þessum gróðursetningarferðum á skikkanlegum tíma. Einhverju sinni þótti mér Halldór vera óeðlilega lengi og langt liðið á kvöld. Ég ek því í ofboði niður á Seyðisfjörð sannfærður um að nú hafi hann dottið og lærbrotnað í snarbröttum og grýttum grafningum Strandatinds. Þegar ofan yfir var komið sé ég bílinn í vegkantinum en Halldór hvergi. Var ég búinn að skyggnast um í dágóða stund, undrandi yfir því að sjá hann ekki og að því kominn að kalla út björgunarsveitir, er ég með naumindum greini hann efst í skriðu undir neðsta hamrabelti Strandatinds með plöntubakka í hendi, á spariskónum.

Það er sagt að hugurinn beri menn hálfa leið en þarna var skógræktaráhuginn svo sannarlega búinn að bera Halldór alla leið, í það minnsta þurfti ég að taka á honum stóra mínum til að komast upp þessa 300 metra snarbröttu hlíð til hans.

Það er með miklu þakklæti sem ég minnist kvöldfundanna okkar þar sem Halldór miðlaði mér af sinni víðtæku visku um framandi menningarheima og lönd og var þá nánast sama hvar borið var niður. Ólíklegustu málefni voru krufin og rædd og fyrir kom að kapteini Morgan var gefinn kostur á að leggja sitt til málanna, en allt í hófsemd. Eitt vorum við þó ósammála um en það var líf að lokinni þessari jarðvist. Ég glotti því út í annað þegar ég hugsa til hans í Sumarlandinu. Takk fyrir allt Halldór, sjáumst síðar.

Við fjölskyldan á Brúarlandi vottum Alevtinu, börnum og fjölskyldum þeirra okkar dýpstu samúð.

Vignir Elvar, Björg og fjölskylda.