Lærðu pastagerð í Flórens

Mæðgurnar Ragnhildur, Ásdís og Margrét voru ánægðar með námskeiðið.
Mæðgurnar Ragnhildur, Ásdís og Margrét voru ánægðar með námskeiðið.

Ferskt heimagert pasta er algjört lostæti með góðri sósu eða fyllingu. Í Flórens fór blaðamaður á námskeið til að læra handtökin af alvöru ítölskum kokki.

Í miðborg Flórens er eitthvað fyrir öll skynfæri, ekki síst bragðlaukana. Ítalskur matur er jú alveg einstaklega góður; um það geta flestir verið sammála! Ferðamenn, sem sækja heim þessa gömlu og gullfallegu borg, geta alls staðar fundið dásamlegan mat og er borgin þekkt fyrir svokallaða Fiorentina-steik sem er borin fram á beini, nánast hrá. En auðvitað er alls staðar hægt að fá pastarétti af öllum gerðum, hvern öðrum betri.

mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Eitt af því sem ferðamenn geta skemmt sér við í Flórens er að fara á matreiðslunámskeið og valdi undirrituð pastanámskeið ásamt systur sinni Margréti og móðurinni Ragnhildi. Mæðgurnar mættu stundvíslega til hans Giacomo hjá Pastamania og stilltu sér upp við langborð ásamt fjölskyldu frá Sviss og fimm Bandaríkjamönnum frá Texas. Allir fengu plastsvuntu, hundrað grömm af sérstöku hveiti í skál, eitt egg og kökukefli. Meira þarf í raun ekki til að búa til sitt eigið pasta.

Giacomo var sáttur við tagliatelle nemendanna.
Giacomo var sáttur við tagliatelle nemendanna. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Auðveldara en maður heldur

Ítalski kokkurinn Giacomo kunni sannarlega handtökin, enda hafði hann lært pastagerð af ömmu sinni þegar hann var smástrákur. Hann kenndi áhugasömum túristum að hræra, hnoða, fletja út og skera þannig að úr varð hið fínasta tagliatelle, ravíólí og tortellini. Reyndar fengum við aðstoð við skurðinn á tagliatelle með sérstökum trékössum með strengjum til að skera í jafna strimla. En ekkert mál er að brjóta deigið varlega saman og skera í strimla. Eða bara að búa til ravíólí, fylla það af osti og loka. Yngsti neminn, sjö ára gutti, var alveg jafn flinkur og við fullorðna fólkið, þannig að pastagerð er eitthvað sem hægt er að gera með allri fjölskyldunni.

Milo litli var ánægður með afraksturinn.
Milo litli var ánægður með afraksturinn. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Á meðan var útbúin tómatsósa og smjörsósa í eldhúsinu og eftir að búið var að sjóða pastað, var sest niður að snæðingi. Skemmst er frá því að segja að maturinn var upp á tíu og rann ljúflega niður. Pastað var sérlega gott eftir alla vinnuna, sem var nú ekki erfið. Að búa til sitt eigið pasta er mun auðveldara en maður heldur. Uppskriftirnar frá Giacomo má svo finna hér á síðunni og nú er bara að bretta upp ermar og prófa!

Ferðamennirnir nutu þess að búa til pasta saman á námskeiðinu …
Ferðamennirnir nutu þess að búa til pasta saman á námskeiðinu í Flórens. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Alvöru bolognese-ragú - fyr­ir 4

Uppskrift:

  • 300 g nauta­hakk
  • 150 g bei­kon (helst pancetta-bei­kon)
  • 50 g sell­e­rí
  • 50 g gul­ræt­ur
  • 50 g lauk­ur
  • 300 g tóm­atsósa fyr­ir pasta (t.d. passata)
  • ½ glas hvít­vín
  • ½ glas mjólk
  • salt og pip­ar
  • 3 msk ólífu­olía
Aðferð:
  • Skerið bei­kon og græn­meti í litla bita og hafið til­búið til hliðar.
  • Bræðið bei­konið í pönnu á miðlungs­hita.
  • Bætið út í sell­e­ríi, lauk og gul­rót­um, ásamt þrem­ur mat­skeiðum af olíu.
  • Bætið síðan hakk­inu sam­an við og brúnið.
  • Hellið hvít­víni sam­an við og látið sjóða upp. Haldið áfram að elda og hrærið vel og bætið síðan tóm­atsós­unni sam­an við. Látið malla á lág­um hita í tvo klukku­tíma með loki á pönn­unni. Ef sós­an þykkn­ar um of má bæta svo­litlu vatni út í. Smakkið til með salti og pip­ar.
  • Gott er að bæta út í smá­veg­is mjólk til að fá sýruna úr sós­unni. Berið fram með góðu pasta og stráið svo par­mes­an yfir.

Ítölsk tómatsósa

Uppskrift:

  • 2 msk. ólífu­olía
  • 2 hvít­lauksrif, mar­in
  • 500 g passata-sósa
  • 4 basil­lauf
  • 2 tsk. salt

Aðferð:

  1. Hitið olíu í stórri pönnu og bætið út í hvít­laukn­um og eldið á lág­um hita þar til hann hef­ur mýkst.
  2. Bætið út í passata-sós­unni og eldið í nokkr­ar mín­út­ur. Bætið þá basil út í.
  3. Saltið vel og látið malla í 20 mín­út­ur. Sós­an hent­ar vel með alls kyns pasta.

Hér er frá­bær fyll­ing fyr­ir ravíólí eða tortell­ini

Uppskrift: 

  • 200 g fersk­ur ricotta-ost­ur
  • 100 g par­mes­an (24 mánaða)
  • 1 msk. múskat eða 1 msk. trufflu­olía

Aðferð: 

  1. Blandið sam­an ost­un­um og bætið svo við múskati eða trufflu­olíu.
  2. Sprautið fylll­ingu var­lega á ann­an helm­ing fern­ings, bleytið kant­ana með smá vatni, leggið ann­an fern­ing yfir og lokið með því að þrýsta sam­an.
  3. Sjóðið í vel söltuðu vatni í ör­fá­ar mín­út­ur og berið fram með smjörsósu eða tóm­atsósu sem finna má á síðunni.

Smjör- og salvíusósa

Uppskrift:

  • 100 g smjör í bit­um
  • 4 lauf af salvíu, gróf­lega skorið
  • ½ tsk salt

Aðferð:

  1. Bræðið smjör í stórri pönnu yfir miðlungs­hita.
  2. Hitið í 3-4 mín­út­ur og hrærið stans­laust þar til allt er bráðið.
  3. Hrærið þá salvíu sam­an við og saltið og takið strax af hit­an­um. Sós­an hent­ar vel með alls kyns pasta.
Slegið var upp veislu að námskeiði loknu og bragðaðist maturinn …
Slegið var upp veislu að námskeiði loknu og bragðaðist maturinn unaðslega vel. Ásdís Ásgeirsdóttir
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka