Meistarakokkurinn Sindri verður með pop-up í Varmalandi

Sindri Guðbrandur Sigurðsson meistarakokkur verður með pop-up á veitingastaðnum Calor …
Sindri Guðbrandur Sigurðsson meistarakokkur verður með pop-up á veitingastaðnum Calor á Hótel Varmalandi föstudaginn 3.maí næstkomandi. Samsett mynd

Föstudaginn, 3. maí næstkomandi verður margverðlaunaði meistarakokkurinn Sindri Guðbrandur Sigurðsson með pop-up á veitingastaðnum Calor á Hótel Varmalandi í Borgarfirði. Ferill Sindra í keppnismatreiðslu er glæsilegur, hann hreppti 3. sætið á Ólympíuleikunum í matreiðslu með íslenska kokkalandsliðinu, hann hefur unnið titilinn, Besti kokkur Norðurlandanna, varð Kokkur ársins árið 2023 og verður fulltrúi Íslands í Bocuse d'Or frægustu matreiðslukeppni heims á næsta ári sem haldin verður í Lyon í Frakklandi.

Sindri er einnig eigandi að veisluþjónustunni Flóru ásamt Sigurjóni Braga Geirssyni, sem einnig er margverðlaunaður meistarakokkur og þjálfar Sindra fyrir keppnina sem framundan er úti í Lyon.

Hótel Varmaland er í sveit þar sem kyrrlát er og …
Hótel Varmaland er í sveit þar sem kyrrlát er og fallegt, á skjólsælum stað á milli fallegra klettabletta sem á sér fáa líka. Ljósmynd/Hótel Varmaland

Frelsi til að gera það sem okkur langar til

Það styttist óðum í keppnina úti í Lyon og það er eflaust nóg að gera hjá þér fram að henni. Ertu byrjaður að æfa fyrir komandi keppni?

„Þessa dagana er ég að vinna, en einbeitingin fer á fullt á Bocuse d'Or eftir sumarið.“

Nú verður þú með pop-up á Hótel Varmalandi á föstudaginn næstkomandi, er það liður í undirbúningnum fyrir keppnina?

„Nei, þetta er verkefni sem að ég og teymið á veitingastaðnum á Hótel Varmalandi unnum í sameiningu. Það er ávallt gaman þegar að veitingastaðir eru til í að leyfa okkur kokkunum að njóta okkar á viðburðum eins og þessum. Þá fáum við ákveðið frelsi og tækifæri til að gera það sem okkur langar til í matargerðinni.“

Var einu sinni yfirkokkurinn hans Elmars

Af hverju Hótel Varmaland, áttu einhverjar tengingar þangað?

„Ég var einu sinni yfirkokkurinn hans Elmars Daða Sævarssonar sem er yfirkokkur þar núna. Okkur datt í hug að vera saman með pop-up og létum bara vaða, sem er ótrúlega skemmtilegt.“

Hvað ætlið þið Elmar að bjóða matargestum upp á?

„Við ætlum að bjóða upp á eftirminnilega matarupplifun, fimm rétta matseðil með samblandi af hvítum og bleikum fisk, nautakjöti ásamt eftirrétti. Síðan verður boðið upp á vínpörun fyrir þá sem vilja.“

Eigum við von á því að sjá þig vera á fleiri stöðum um land allt með pop-up?

„Þetta er eina pop-up matarupplifun sem er á döfinni eins og er en ég er alltaf klár í að taka þátt í fleirum. Það er mjög gaman að fá tækifæri til að koma með sinn mat inn á ólíka staði. Þá kynnist ég fleira fólki og læri af öðrum. Ég er orðinn mjög spenntur fyrir föstudeginum og hlakka mikið til að matreiða með Elmari fyrir matargesti á Hótel Varmalandi. Vonast til að sjá sem flesta í Borgarfirðinum,“ segir Sindri að lokum.

Hægt er að sjá nánara um viðburðinn hér.

Veitingastaður hótelsins, Calor, er á efstu hæð með stórbrotið útsýni …
Veitingastaður hótelsins, Calor, er á efstu hæð með stórbrotið útsýni til allra átta. Ljósmynd/Hótel Varmaland
Stórfenglegt útsýni sem matargestir fá að njóta meðan á matarupplifuninni …
Stórfenglegt útsýni sem matargestir fá að njóta meðan á matarupplifuninni stendur. Ljósmynd/Hótel Varmaland
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert