Kjúlli í potti með bláberjabombu

Girnilegur þessi fallegi kjúklingaréttur með bláberjabombu.
Girnilegur þessi fallegi kjúklingaréttur með bláberjabombu. Ljósmynd/Hanna

Hanna Þóra keramiker er ekki bara listræn heldur eru snilldar kokkur. Hún bjó til þennan einstaka kjúklingarétt sem á sér engan líka og gerði réttinn í einum af leirpottunum sínum. Hér er á ferðinni kjúlli í potti með bláberjabombu sem þið eigið eftir að missa ykkur yfir.

Nú erum við að tala um bláberjasósu og í alvöru þá er hún ekki bara falleg á litinn heldur er hún líka fantagóð og ilmar svo vel. Allir heima hjá Hönnu voru sammála um að sósan bragðast og lyktar alveg sérstaklega vel. 

Hanna notaði íslensk bláber í sósuna sem hún átti í frystinum en ef þau eru ekki til þá er hægt að fá fryst bláber sem hafa líka þennan fallega lit. Hægt er að forvinna þennan rétt með því að gera sósuna daginn áður og geyma í ísskáp en ekki nauðsyn. Þetta er helgarréttur sem á eftir að slá í gegn. Gott að bera réttinn fram með grjónum og fersku salati. Hægt er að sjá myndband hér á bloggsíðunni hennar hvernig hún útbýr þennan dásamlega rétt. 

Kjúlli í potti með bláberjabombu

Kjúklingur

  • 1 kjúklingur (u.þ.b. 1,8 – 2 kg)
  • Kjúklingaveisla krydd frá Kryddhúsinu
  • 4 – 10 hvítlauksrif, með hýðinu
  • Sítrónusneiðar, má sleppa
  • Fersk eða frosin bláber, smá sleppa
  • Saltflögur eftir smekk
  • Fersk steinselja eftir smekk
  • Granateplafræ ef vill

Aðferð:

  1. Stillið ofninn á 180°C blástur.
  2. Skolið kjúklinginn og þurrkið vel á eftir.
  3. Kryddið kjúklinginn og setjið í leirpott eða annað eldfast mót (sjá myndband).
  4. Til þess að flýta fyrir steikingu og einnig auðvelda að ná sér í bita af kjúklingnum, þegar hann er borinn fram í pottinum, þá getið þið klippt hann aðeins í sundur með öflugum skærum en það er alls ekki nauðsynlegt.
  5. Setjið hvítlauksrifin með og þar í pottinn ásamt sítrónusneiðum og bláberjum.
  6. Setjið lokið á pottinn/fatið.
  7. Eldið kjúklinginn í 1½ klukkustund (háð þyngd).
  8. Takið lokið af pottinum síðustu mínúturnar, bara til að fá fallegri lit á kjúklinginn en það þarf alls ekki alltaf. 
  9. Þeir sem eru óöruggir með eldunina geta stungið kjöthitamæli í bringuna (geri það oft þegar kjúllinn er búinn að vera í klukkustund í ofninum)
  10. Kjúklingurinn á að vera tilbúinn þegar mælirinn sýnir 78°C.
  11. Hellið hluta af sósunni yfir kjúklinginn og berið fram sósu í sér skál. 
  12. Ferskri niðurskorinni steinselju stráð yfir í lokin ásamt saltflögum og granateplafræjum ef vill.
  13. Stundum er soðið mikið sem kemur af kjúklingnum þá er gott að hella því í sér skál og bera fram með kjúllanum. 

Bláberjasósa með hvítlauk

  • 2 dl fersk eða frosin bláber
  • 2 dl olía
  • 2 dl sýrður rjómi
  • 1 stk. sultuð engiferkúla
  • 2-4 hvítlauksrif, pressuð
  • Saltflögur og pipar eftir smekk, sett í lokin

Aðferð:

  1. Allt hráefni sett í matvinnsluvél eða öflugan blandara og blandað vel saman.
  2. Gott að láta sósuna standa aðeins.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert