Fylltar kjúklingabringur með chili-rjómaosti, beikoni og sveppum

Dýrðlega fylltarkjúklingabringur bornar fram með tagliatelle og rjómalagaðri chili-sveppasósu sem …
Dýrðlega fylltarkjúklingabringur bornar fram með tagliatelle og rjómalagaðri chili-sveppasósu sem bráðnar í munni. Ljósmynd/Valla Gröndal

Þessi réttur hentar ótrúlega vel þegar tíminn er naumur en þig langar til þess að bera fram eitthvað sérstaklega gott og vilt taka pásu frá hátíðarkræsingunum þar til um helgina. Hér eru á ferðinni dýrðlegar kjúklingabringur fylltar með chili-rjómaosti, beikoni og sveppum. Upplagt að bera þær fram með tagliatelle og rjómalagaðri chili-sveppasósu sem bráðnar í munni. Uppskriftin kemur úr smiðju Valgerðar Grétu Gröndal matgæðings, alla jafna kölluð Valla, sem heldur úti matarblogginu Valla Gröndal.

Gott að fá sér ljúffenga en einfalda máltíð eftir hátíðarkræsingarnar.
Gott að fá sér ljúffenga en einfalda máltíð eftir hátíðarkræsingarnar. Ljósmynd/Valla Gröndal

Fylltar kjúklingabringur með chili-rjómaosti, beikoni og sveppum

Fyrir 4-6

  • 4 kjúklingabringur (750-800 g).
  • 160 g beikon
  • 60 g sólþurrkaðir tómatar
  • 100 g sveppir
  • 100 g rjómaostur með grillaðri papriku og chili frá MS Gott í matinn
  • 75 g Pizzaostur frá MS
  • 1 msk. fersk steinselja
  • Salt og svartur pipar eftir smekk
  • 1 tsk. hvítlauksduft
  • 1 tsk. paprikukrydd 

Aðferð:

  1. Skerið beikonið í litla bita og steikið á pönnu.
  2. Skerið sveppina á meðan frekar smátt.
  3. Þerrið sólþurrkuðu tómatana og skerið smátt. Setjið til hliðar.
  4. Takið beikonið af pönnunni og setjið á eldhúspappír. Látið kólna.
  5. Setjið sveppina á pönnuna og léttsteikið þá, setjið þá svo yfir beikonið og kælið.
  6. Setjið rjómaostinn, beikonið, sveppina og sólþurrkuðu tómatana í skál. Hrærið saman með skeið. Saxið steinseljuna og blandið henni saman við ásamt pizzaostinum.
  7. Skerið vasa í bringurnar en gætið þess að fara ekki í gegn. Fyllið bringurnar með fyllingunni.
  8. Kryddið bringurnar að utan með hvítlauksdufti, papriku og salti og pipar.
  9. Hitið airfryer í 175°C í 2-3 mínútur eða bakarofninn í 185°C.
  10. Setjið bökunarpappír í botninn eða úðið aðeins yfir hann með olíuspreyi.
  11. Bakið bringurnar í 13 mínútur. Takið þá skúffuna út og stráið smávegis af rifnum osti yfir og bakið áfram í 2 mín. Ef þið bakið bringurnar í ofni lengið þá tímann í 25 mínútur.
  12. Bringurnar eru tilbúnar þegar kjarnhitinn er kominn yfir 74°C.
  13. Á meðan bringurnar bakast er fullkomið að græja sósuna og sjóða pastað.
  14. Þegar allt er tilbúið setjið þá tagliatelle á hvern disk, hellið sósu yfir pastað og skerið bringurnar í sneiðar og setjið ofan á pastað. 

Rjómalöguð chili-sveppasósa

  • 1 msk. smjör
  • 2 skalotlaukar eða 1/3 venjulegur laukur
  • 70 g sveppir
  • 2 dl vatn
  • 1 kjúklingateningur
  • 100 g rjómaostur með grillaðri papriku og chili frá MS
  • 250 ml rjómi frá MS
  • Salt og svartur pipar eftir smekk
  • ¼ tsk. chiliduft
  • ½ tsk. paprikuduft
  • 1 msk. fersk steinselja
  • 1 msk. maizena mjöl blandað saman í 1 msk. vatn.
  • 300 g tagliatelle pasta

Aðferð:

  1. Saxið laukinn smátt og skerið sveppina í sneiðar. Ef þeir eru stórir má saxa þá aðeins.
  2. Setjið smjörið í pott og bræðið, setjið lauk og sveppi út í og steikið þar til laukurinn er farinn að gyllast.
  3. Bætið vatni og kjúklingateningi saman við.
  4. Þegar teningurinn er uppleystur bætið þá rjómaostinum saman við. Látið malla í 2 mínútur. Bætið þá rjómanum saman við.
  5. Kryddið sósuna og smakkið til með salti og pipar. Ef ykkur finnst sósan vera of þunn er gott að hræra saman maízenamjöli og vatni saman og bæta því út í sósuna. Við það þykkist hún án þess að verða of þykk.
  6. Setjið fersku steinseljuna saman við alveg í lokin.
  7. Hitið vatn í rúmum potti. Þegar suðan er komin upp saltið það þá ríflega og bætið pastanu út í vatnið.
  8. Sjóðið samkvæmt leiðbeiningum.
  9. Berið fram og njótið við huggulegheit.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert