Ævintýraleg vínsmökkun í iðrum jarðar

Ástþór Sigurvinsson er sommelier á Michelin-stjörnuveitingastaðnum Moss. Hann býður gestum …
Ástþór Sigurvinsson er sommelier á Michelin-stjörnuveitingastaðnum Moss. Hann býður gestum upp á einstaka upplifun þegar kemur að því að para vín með mat og býr yfir þekkingu á víni. mbl.is/Árni Sæberg

Bláa lónið hefur dregið til sín innlenda gesti í áratugi og ekki síður erlenda og er ein mesta landkynning og aðdráttarafl sem fyrirfinnst í íslenskri ferðaþjónustu enda talið eitt af undrum veraldar. Heilsulindin er umvafin mosaþöktum hraunbreiðum og dulúð og umhverfið í kringum Bláa lónið minnir þig óneitanlega á að heimurinn er fullur af fegurð og hughrifum. Gufustrókarnir sem sjá má stíga upp til himins af svæðinu eru þögul áminning um jarðvarmann og kraftinn sem kraumar undir yfirborðinu sem umlykur mannvirki Bláa lónsins.

Í hinu leyndardómsfulla og stórbrotna landslagi Bláa lónsins stendur hið stórglæsilega hótel The Retreat og innan veggja þess er hinn stórkostlegi Michelin-stjörnuveitingastaður Moss og hinn einstaki og tilkomumikli vínkjallari hótelsins. Það er engum blöðum um það að fletta að vínkjallarinn á Moss er stórkostlegur og heillandi; náttúrulegt listaverk, staðsettur undir miðri hraunbreiðu á Reykjanesskaga og á sennilega fáa sína líka í heiminum. Að mörgu leyti falinn demantur.

Hraunveggirnir fá sannarlega að njóta sín og halda vel utan …
Hraunveggirnir fá sannarlega að njóta sín og halda vel utan um afbragðsvín frá öllum heimshornum sem hvílir á sérsmíðuðum vínrekkum sem henta rýminu vel. mbl.is/Árni Sæberg

Umluktur kyrrð og ró

Greinarhöfundur varð þess heiðurs aðnjótandi að fá afar áhugaverða kynningu á vínkjallaranum á The Retreat-hótelinu sem er staðsettur nánast að mig langar að segja í iðrum jarðar enda er tekin lyfta niður á þennan griðastað sem er umluktur kyrrð og ró. Þessi innkoma í vínkjallarann minnti mig á söguna um Leyndardóma Snæfellsjökuls eftir franska rithöfundinn Jules Verne sem fjallar um ungan Englending, þýskan prófessor og íslenska fylgdarmenn þeirra. Saman fara þeir niður um gíginn á Snæfellsjökli og lenda í alls kyns ævintýrum í iðrum jarðar en komast aftur upp á yfirborðið í gegnum eldgíg á Ítalíu að lokum. Vínkjallarinn liggur kannski ekki landanna á milli, en hann er töfrandi hraunhellir þar sem bergið er áberandi og passlega svalur til að vínið geymist sem best. Hraunveggirnir fá sannarlega að njóta sín og halda vel utan um afbragðsvín frá öllum heimshornum sem hvílir á sérsmíðuðum vínrekkum sem henta rýminu vel. Í vínkjallaranum eru tæpar fimm þúsund flöskur af eðalvíni.

Vínkjallarinn á The Retreat hefur staðið af sér sitthvað frá opnun 2018. Það sem hefur þó haldist óbreytt frá upphafi er metnaður starfsfólksins og gríðarlega fjölbreytt vínsafn sem höfðar til fróðleiksfúsra sælkera og allra sem vilja gera sér dagamun með óvenjulegum og einstökum matarupplifunum svo fátt sé nefnt. Starfsfólk hótelsins hefur tekið þessu öllu með æðruleysi og lagt mikið á sig til þess að hlúa að bæði vínsafninu og umhverfi þess enda ástríðan í fyrirrúmi hjá metnaðarfullu starfsfólkinu. Gestum gefst því kostur á að gera vel við sig í mat og drykk og ekki síður að upplifa lystisemdir hótelsins og aðstöðu kjósi þeir svo.

„Sommelier“ beið mín

Þegar í vínkjallarann var komið beið mín vínþjónn að nafni Ástþór Sigurvinsson sem ber jafnframt titilinn sommelier. Sommelier er franska orðið yfir vínþjón og er alþjóðlegt heiti yfir þá sem hafa menntað sig, eru vel þjálfaðir, fróðir um vín og starfar vanalega á fínum veitingastöðum. Sommelier er vínsérfræðingur sem sér um vínlista, mælir með matar- og vínpörun og ráðleggur gestum um val á víni út frá óskum þeirra og matarvali. Þeir búa jafnframt yfir víðtækri þekkingu á víni, vínekrum, víngerðarferlinu og ýmsum áhugaverðum fróðleik. Ekki er hægt að segja að sommelier sé mjög útbreitt starfsheiti hérlendis eða margir séu með þessa þekkingu á Íslandi en á Retreat starfa þrír vínþjónar, tveir Íslendingar og einn Frakki, sem bera starfsheitið sommelier.

Ástþór bauð upp á smökkun á Dom Perignon, einni þekktustu …
Ástþór bauð upp á smökkun á Dom Perignon, einni þekktustu kampavínstegund veraldar, sem hann paraði við osta og dýrindis hunang. mbl.is/Árni Sæberg

Hver vínflaska hefur sína sögu

Ástþór er sérlega fróður og segir vel frá. Í samtali okkar kom í ljós að hver vínflaska hefur sögu að segja og hann gaf mér góða innsýn í fjölbreytileika hefða, bragðs og sögu nokkurra víntegunda í kjallaranum. Að hans sögn leitast flestir vínframleiðendur og vínbændur við að halda í hefðir, þekkingu og arfleifð sem spannar jafnvel nokkra mannsaldra. Það er því bæði mikil þekking og ástríða að baki hverri flösku, enda má lítið út af bregða þegar vínviður er annars vegar.

Þekktasta kampavín veraldar

Á borðinu beið mín dýrindis kampavín frá Dom Perignon, eitt þekktasta kampavín veraldar, ásamt ostum og dýrindis hunangi. Það vill svo skemmtilega til að ég heimsótti á síðastliðnu ári grafreit Dom Perignon í Saint-Sindulphe-kirkjugarði í þorpinu Hautvillers á ferð minni um vínhéruð Champagne í Frakklandi. Í næsta nágrenni við grafreit Dom Perignon er bærinn Épernay sem er þekktastur fyrir kampavín og eitt aðalaðdráttarafl bæjarins er breiðstrætið Avenue de Champagne sem er án efa ein af þekktari götum heims.

Það var seint á 18. öld sem kampavínsframleiðendur fullkomnuðu listina við kampavínsframleiðslu og ruddu brautina fyrir alþjóðlega dreifingu og alla 19. öldina festu mikilvægustu kampavínshúsin sér stað við breiðgötuna Avenue de Champagne.

Einstök kampavínspörun með harðkýtisostum . Ástþór paraði líka Dom Perignon …
Einstök kampavínspörun með harðkýtisostum . Ástþór paraði líka Dom Perignon Rose sem einstaklega vandað kampavín með fíngerðri freyðingu. mbl.is/Árni Sæberg

Vínsmökkunin ævintýraleg upplifun

En víkjum aftur að samtalinu við Ástþór, við ræddum hvað gæði víns skipta miklu máli.

„Við sækjumst eftir að finna einstök og fáguð vín, bæði í klassískum stíl og framandi ef út í það er farið. Við á Moss og The Retreat viljum gjarnan að gestir okkar upplifi það að þjónninn sé að skenkja vín í glasið sem færir þér ákveðna fyllingu og eykur sannarlega upplifun þína. Óskir gesta á Moss og The Retreat eru á alla kanta og við reynum eftir fremsta megni að uppfylla þær enda vilja sumir vín frá gamla heiminum, sumir frá nýja heiminum og aðrir vilja bara náttúruvín en flestir fagna fjölbreytileikanum,“ segir Ástþór. Í framhaldinu bauð Ástþór upp á einstaka kampavínssmökkun sem pöruð var með harðkýtisostum. Að fara í vínsmökkun í þessu umhverfi og fá þennan fróðleik er ævintýraleg heimsklassaupplifun.

Í boði að kynna sér lystisemdir vínkjallarans

„Vín er meira en bara vín eða drykkur,“ segir hinn fróðleiksfúsi Ástþór. „Það er líka upplifun, sér í lagi þegar um góð og vönduð vín er að ræða.“ Ástþór segir að í boði sé vínsmökkun fyrir gesti hótelsins og veitingastaðarins og það sé jafnframt í boði að skipuleggja slíkt fyrir litla hópa sem hafa áhuga á að kynna sér lystisemdir vínkjallarans og dreypa á eðalvíni og drekka í sig fróðleik. Hægt er því að bóka heimsókn í vínkjallarann fyrir þá sem þyrstir í að læra meira um vín í víðum skilningi. Aðspurður segir Ástþór að það sé gaman að segja frá því að þau hafi fundið fyrir auknum áhuga Íslendinga á að heimsækja staðinn og gera sér dagamun með einstakri matarupplifun og vínpörun hér á Moss og hótelinu.

The Retreat og Moss bjóða, að sögn Ástþórs, upp á vín í öllum verðflokkum og jafnframt handvalið hágæðavín sem gæti flokkast sem vandfundnar gersemar. Víntegundir eru sannarlega fjölbreyttar, margar þeirra fást ekki annars staðar, en þetta er alla jafna talið ljúffengt og áhugavert vín frá öllum heimshornum sem boðið er upp á.

Af hverju sommelier?

Sommelier getur aðstoðað gesti við að upplifa betri matar- og vínpörun, sem getur aukið matarupplifun gestanna. Þeir eru sérfræðingar í að para saman mat og drykk og geta aðstoðað gesti með fullkomna samsvörun fyrir tiltekinn rétt og vín. Eitt af lykilhlutverkum sommeliers er að finna sérvalið vín fyrir gesti eins og áður sagði, hafi til að mynda gesturinn ekki sterkar skoðanir á því sjálfur.

„Mörg vín kitla sannarlega bragðlaukana og ekki síður þegar þau eru pöruð með ýmsum réttum. Óhefðbundin samsetning á mat og flóknar bragðsamsetningar reyna virkilega á kunnáttu vínþjónsins,“ segir Ástþór og bætir við að það geti verið verðug og skemmtileg verkefni fyrir þann sem er sommelier.

Hægt að para kampavín með öllum mat

Ástþór segir sem dæmi að góð vínpörun geti útlagst þannig að eftir að hafa dreypt á víni þá viljir þú um leið taka bita af matnum og ljúffengur munnbiti kalli þá jafnframt á sopa af víninu. Eftir mjög áhugavert samtal við Ástþór og eftir þessa ævintýralegu kampavínsupplifun var lyftan tekin upp úr iðrum jarðar. Heilmikill fróðleikur situr eftir eftir þessa heimsókn og ég er innblásin af hugmyndum um hvernig megi bjóða góðum vinum upp á ævintýralega upplifun sem á fáa sína líka. Sem áhugamanneskja um matargerð og sérstaklega gott kampavín þá er ekki hægt annað en að gleðjast þegar Ástþór sammælist greinarhöfundi um að hægt sé að para kampavín með öllum mat.

Vínkjallarinn á Moss er einstakur, heillandi lístaverk þar sem náttúran …
Vínkjallarinn á Moss er einstakur, heillandi lístaverk þar sem náttúran fær að njóta sín í sinni fegurstu mynd og vínflöskurnar falla inn í umhverfið. mbl.is/Árni Sæberg
Það er ævintýraleg upplifun að standa þarna í iðrum jarðar …
Það er ævintýraleg upplifun að standa þarna í iðrum jarðar og horfa á þessa einstöku vínrekka sem eiga fáa sína líka. mbl.is/Árni Sæberg
Viðarkassarnir fullir af flöskum sem eiga sér sögu njóta sín …
Viðarkassarnir fullir af flöskum sem eiga sér sögu njóta sín til fulls í þessu umhverfi. Það er eins og hellirinn hafi verið hannaður fyrir vínkjallarann. mbl.is/Árni Sæberg
Umhverfið er heillandi.
Umhverfið er heillandi. mbl.is/Árni Sæberg
Kampavínið Dom Perignon nýtur sín vel í þessu einstaka umhverfi …
Kampavínið Dom Perignon nýtur sín vel í þessu einstaka umhverfi sem vínkjallarinn býður upp á og er sveipað ævintýralegum ljóma innan um bergið. mbl.is/Árni Sæberg
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert