Tottenham í fjórða sæti – Jóhann spilaði í ótrúlegum leik

Timo Werner skýtur að marki Luton í dag.
Timo Werner skýtur að marki Luton í dag. AFP/Ben Stansall

Tottenham fór upp í fjórða sæti ensku úrvalsdeildarinnar í fótbolta með sigri á Luton á heimavelli sínum, 2:1, í dag.

Tahith Chong kom Luton yfir strax á 3. mínútu en Issa Kaboré jafnaði fyrir Tottenham með sjálfsmarki á 51. mínútu. Heung-min Son skoraði svo sigurmark Tottenham á 86. mínútu. Luton er dottið niður í fallsæti á markatölu.

Chelsea og Burnley skildu jöfn, 2:2, á heimavelli fyrrnefnda liðsins. Cole Palmer kom Chelsea yfir með marki úr víti á 44. mínútu og Lorenz Assignon fékk sitt annað gula og þar með rautt er hann gaf vítið.

Tíu leikmenn Burnley gáfust ekki upp gegn Chelsea.
Tíu leikmenn Burnley gáfust ekki upp gegn Chelsea. AFP/Glyn Kirk

Tíu leikmenn Burnley neituðu að gefast upp, því Josh Cullen jafnaði á 46. mínútu. Palmer kom Chelsea aftur yfir á 78. mínútu en enn neitaði Burnley að gefast upp, því Dara O‘Shea jafnaði á 81. mínútu og þar við sat.

Jóhann Berg Guðmundsson kom inn á hjá Burnley á 70. mínútu, en liðið er fjórum stigum frá öruggu sæti. Chelsea er í 11. sæti með 40 stig.

Botnliðið missti niður forskot

Sheffield United og Fulham skildu jöfn, 3:3, í ótrúlegum leik í Sheffield. João Palhinha kom Fulham yfir á 62. mínútu en Sheffield-liðið svaraði með tveimur mörkum frá Ben Brereton Díaz og einu frá Oliver McBurnie.

Bobby Decordova-Reid minnkaði muninn á 86. mínútu og Rodrigo Muniz tryggði Fulham eitt stig með marki í uppbótartíma. Sheffield United er sem fyrr í botnsætinu með aðeins 15 stig. Fulham er í 12. sæti með 39 stig.

Dramatískur sigur Bournemouth

Bournemouth vann Everton á dramatískan hátt, 2:1, á heimavelli. Dominic Solanke kom Bournemouth yfir á 64. mínútu, en Beto jafnaði á 87. mínútu. Bournemouth átti hins vegar lokaorðið því Séamus Coleman skoraði sjálfsmark í uppbótartíma.

Nottingham Forest og Crystal Palace skildu jöfn, 1:1. Jean-Philippe Mateta kom Palace yfir á 11. mínútu en Chris Wood jafnaði fyrir Forest á 61. mínútu. Forest er fyrir ofan Luton og fallsæti á markatölu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert