Hvatinn ekki sá sami

Bílaumferð á Vesturlandsvegi.
Bílaumferð á Vesturlandsvegi. mbl.is/Árni Sæberg

María Jóna Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins, kveðst ekki sjá þá þróun á tölum að fólk sé að gefast upp á rafmagnsbílum og kaupa sér heldur bensín- eða dísilbíla. Verulegur samdráttur hefur orðið í nýskráningu rafbíla milli ára og nýskráningu dísilbíla fjölgað lítillega.

Skráning rafbíla dregst saman um 72,3% á meðan dísilbílum fjölgar um 2,9%. Samdráttur í skráningum nýskráðra fólksbíla er 46,4% milli ára. Samdrátturinn er því fyrst og fremst í rafdrifnum fólksbílum.

„Ég vil ekki meina það, þó svo að ég sé ekki með tölulegar upplýsingar þá finnum við að þeir sem eru á rafbíl og eru að endurnýja eru í flestöllum tilfellum að fá sér aftur rafbíl. Hins vegar sýna þessar tölur að veruleg afturför er að eiga sér stað í orkuskiptum,“ segir María Jóna.

María Jóna Magnúsdóttir.
María Jóna Magnúsdóttir.

María Jóna segir margt koma til því á 12 mánaða tímabili frá áramótunum 2022 og 2023 hafa margar breytingar verið gerðar á lögum tengdum hreinorkubílum.

„Virðisaukaskattsívilnun var breytt í styrk frá Orkusjóði sem hefur lækkað á tveim árum um 42% úr 1.560.000 kr. í 900.000 kr. Bifreiðagjald var tvöfaldað, úr 7.540 kr. í 15.080 kr. Afnám virðisaukaskattsívilnunar á útleigu hreinorkubíla gerir það að verkum að 24% virðisaukaskattur leggst á, bæði þegar um skammtíma- og langtímaleigu á ökutæki er að ræða. Álagning 5% vörugjalds gerði það að verkum að munurinn milli losunarlágra bíla og losunarhárra bíla minnkaði. Um síðustu áramót var sett á kílómetragjald á rafmagns-, vetnis- og tengiltvinnbíla sem kostar bifreiðaeigendur 90.000 kr. á ári fyrir rafbíl og 30.000 kr. á ári fyrir tengiltvinnbíl, ef miðað er við 15.000 km meðalakstur á ári. Þó er mikilvægt að benda á að þrátt fyrir þessar aðgerðir er rekstur rafbíla enn mun hagstæðari en sambærilegs jarðefnaeldsneytisbíls,“ segir María Jóna.

„Það vantar dýpri nálgun og vandaðari vinnu af hálfu yfirvalda,“ …
„Það vantar dýpri nálgun og vandaðari vinnu af hálfu yfirvalda,“ segir Runólfur Ólafsson. Samsett mynd/mbl.is/sisi/Árni Sæberg

Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda, telur fjárhagsstöðu fólks yfirleitt ráða för í þróun á bílasölu. Hann telji samdrátt í bílasölu almennt því fyrst og fremst fylgja efnhagsumhverfinu hverju sinni. Breytingar á ívilnanakerfi hafi þó án efa sett sinn svip á þróunina. Hvatinn til að fjárfesta í rafbíl sé ekki sá sami eftir að ívilnanir til kaupenda rafmagnsbíla féllu niður um áramótin.

„Það vantar dýpri nálgun og vandaðari vinnu af hálfu yfirvalda,“ segir Runólfur og bætir við að ekki sé hægt að segjast stefna að orkuskiptum án þess að vinna heimavinnuna sína. Eðlilegra hefði verið að trappa ívilnanirnar niður þar til framleiðslukostnaður á rafmagnsbílum væri kominn á par við dísil- og bensínbíla, en talið sé að því markmiði verði náð innan næstu þriggja ára. Hvað kunni að skýra aukningu á sölu dísilbíla segir Runólfur að m.a. lægra verð og óvinsældir erlendis og samdráttur í framleiðslu komi til greina.

„Kannski fólk sé að reyna að tryggja sér dísilbíl áður en það er um seinan.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert