7 ára drengur olli uppnámi í dýragarði

Drengurinn kastar skjaldböku til krókódílsins Terry.
Drengurinn kastar skjaldböku til krókódílsins Terry. AP

Sjö ára drengur olli miklu uppnámi í dýragarði í Ástralíu í gær. Hann komst inn á skriðdýrasvæði dýragarðsins og drap nokkrar eðlur með steinum og henti þeim í krókódíl.

Drengurinn komst yfir öryggisgirðingu í dýragarðinum í Alice Springs snemma á miðvikudagsmorgun. Hann notaði síðan grjóthnullung til að drepa þrjár eðlur, þar á meðal 20 ára gamla goannaeðlu sem var í miklu uppáhaldi hjá gestum dýragarðsins. Hann kastaði hræjunum síðan til krókódílsins Terry.

Að sögn Rex Neindorf, forstjóra dýragarðsins, kastaði drengurinn einnig nokkrum lifandi dýrum yfir girðinguna til Terry og hann klifraði einnig yfir ytri öryggisgirðingu við krókódílatjörnina til að komast nær. Myndir af athæfi drengsins náðust á öryggismyndavélar og þar sést að drengurinn er að mestu sviplaus á meðan þessu fór fram.

„Það var eins og hann væri að leika sér," sagði Neindorf.

Drengurinn drap 13 dýr, sem metin eru á jafnvirði um 600 þúsund krónur, þar á meðal skjaldböku og nokkrar litlar eðlur. Engin dýranna eru sjaldgæf í sjálfu sér en Neindorf segir að erfitt verði að fá ný í staðin.

Lögreglan í  Alice Springs segist vita hver drengurinn er en geti ekki ákært hann vegna aldurs hans. „Af öllum fréttum að dæma er þetta býsna andstyggilegur 7 ára drengur," sagði Neindorf, sem segist vera að undirbúa skaðabótamál á hendur foreldrum drengsins. 

Öryggiskerfi dýragarðsins byggist á skynjurum, sem virðast ekki hafa greint drenginn vegna þess hve hann er lítill.   

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert