Tvö börn látin á Ítalíu

Tvö börn, sem brenndust illa er sprenging varð í lest á Ítalíu, eru látin af sárum sínum og er tala látinna eftir slysið því komin upp í sextán. Börnin sem voru tveggja og þriggja ára gömul voru með brunasár á 90% líkama sinna. Þetta kemur fram á fréttavef BBC. 

A.m.k. tugur manna til viðbótar er enn talinn í lífshættu eftir slysið sem varð við bæinn Viareggio á mánudagskvöld. Tvö fjölbýlishús hrundu er lest hlaðin gastönkum fór út af sporinu og sprenging varð í henni. Þá kom eldur upp í fleiri nærliggjandi húsum.

Slysið varð skömmu fyrir miðnætti er flestir íbúar húsanna voru á heimilum sínum.

Íbúum á svæðinu hefur enn ekki verið leyft að snúa heim þar sem enn er talin hætta á sprengingum á svæðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert