Nýjar vísbendingar um Madeleine?

Gerry og Kate McCann, foreldrar Madeleine, sögðu sögu sína í …
Gerry og Kate McCann, foreldrar Madeleine, sögðu sögu sína í sjónvarpsþætti Oprah Winfrey er tvö ár voru liðin frá hvarfi hennar. Reuters

Nýjar upplýsingar varðandi hvarf bresku stúlkunnar Madeleine McCann hafa kveikt von í brjóstum foreldra hennar um að þau muni komast að því hvað af henni varð eftir að hún hvarf úr sumarleyfisíbúð fjölskyldunnar í Portúgal fyrir rúmum tveimur árum. Þetta kemur fram á fréttavef Sky.

„Kate og Gerry taka nýjum upplýsingum yfirleitt á mjög yfirvegaðan hátt en þetta veitir okkur öllum nýja von,” segir amma stúlkunnar Susan Healey í viðtali við tímaritið Hello! Vísar hún þar til teikningar sem birt var í síðustu viku af konu sem sögð er líkjast Victoriu Beckham og talið er hugsanlegt að tengist málinu.

Mun konan hafa gefið sig á tal við ástralskan kaupsýslumann og kunningja hans í Barcelona skömmu eftir hvarf Madeleine og spurt hvort það væru þeir sem ættu að afhenda „nýja dóttur hennar”. Eiginkona kaupsýslumannsins og ung dóttir þeirra voru þá á skútuferðalagi og kom spurningin honum því mjög á óvart.

Healey segir fjölmargar ábendingar hafa borist í kjölfar myndbirtingarinnar og að leitin að Madeleine fari nú að mestu fram í Ástralíu enda hafi konan talað með áströlskum hreim. Hún hafi þó greinilega einnig talað reiprennandi spænsku.

Lögregla í Nýja Suður Wales hefur einnig staðfest að trúverðug ábending hafi borist um það hver umrædd kona geti verið.

Healey segir að fjölskyldan sé nú bjartsýnni en hún hafi verið lengi. Hún viðurkennir þó að efasemdir sæki stundum að henni um það hvort hún muni nokkru sinni fá að vita hvað af Madeleine varð.

„Þó við reynum að vera vongóð þá hugsum við stundum: En þetta er orðinn svo langur tími,” segir hún.

„Stundum er tilfinningin óbærileg en svo kemur upp ný vísbending eða þá að við heyrum um annað barn sem týndist en fannst síðan lifandi og það kemur okkur á flot á ný.”

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert