Heróín sýkt af miltisbrandi

Heróíni sprautað í æð
Heróíni sprautað í æð Reuters

Nokkur fjöldi fíkniefnaneytenda í Skotlandi og Þýskalandi hafa látið lífið eftir að hafa sprautað sig með heróíni sem sýkt var af miltisbrandi. Ekki er útilokað að sýkta efnið berist til Norðurlandanna. Þetta kemur fram á vef danska dagblaðsins Politiken.

Miltisbrandur er sjúkdómur sem sýkill að nafni Bacillus anthracis veldur. Á Vísindavef Háskóla Íslands kemur fram að komist sýkillinn inn í blóðrás manns eða dýrs þá bólgni milta viðkomandi upp og skemmist af völdum dreps. Af þessu er nafnið miltisbrandur dregið. Sýkillinn getur líka komist gegnum húð sem er rofin og
veldur hann þá kýli sem rofnar síðar og er þá með svörtum sárbotni vegna dreps.

Frá byrjun desembermánaðar hafa 14 eiturlyfjaneytendur í Skotlandi sýkst af miltisbrandi og eru sjö þeirra látnir. Vitað er um einn eiturlyfjaneytanda í Þýskalandi sem látist hefur af miltisbrandi.

Yfirvöld í Danmörku óttast að sýkta heróínið geti bortist til Danmerkur smitað eiturlyfjaneytendur þar í landi. Sjúkrahús og heilsugæslur landsins hafa því fengið tilkynningu um það að heilbrigðisstarfsfólk skuli vera á varðbergi gegn grunsamlegum sárum og láta kanna hvort um sýkingu vegna miltisbrands geti verið að ræða. 

Ekki er að svo stöddu vitað hvernig heróínið sýktist af miltisbrandi. Ein kenningin er sú að miltisbrandurinn hafi leynst í beinmjöli sem blandað hafi verið saman við heróínið, en heróín er oft blandað öðrum efnum til þess að drýgja það.  Ekki leikur grunur um að hér sé um hryðjuverkaárás að ræða.

Tekið skal fram að miltisbrandur smitast ekki milli manna. Um er að ræða afar sjaldgæfan sjúkdóm. Hann hefur verið notaður í hernaði, auk þess sem hryðjuverkamenn hafa sýnt því áhuga að nota sýkilinn sér til framdráttar. Þannig vakti það mikla athygli þegar fimm sendibréf sýkt af miltisbrandi voru send til þekktra fréttamanna og stjórnmálamanna í Bandaríkjunum rétt eftir árásirnar á tvíburaturnana í New York 2001. Þá smituðust alls 23 manns og fimm létu lífið.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka