Ömmur í eiturlyfjasölu

Staðalímynd eiturlyfjasalans hefur tekið nokkrum breytingum í Chile.
Staðalímynd eiturlyfjasalans hefur tekið nokkrum breytingum í Chile. Reuters

Ellilífeyrisþegar í Chile, sem eiga erfitt með að láta enda ná saman, láta freistast af fíkniefnasölu. Hefur þessi þróun breytt  ímynd hins hefðbundna eiturlyfjasala umtalsvert að sögn lögreglunnar í landinu.

Meðalaldur eiturlyfjasala hefur t.a.m. hækkað umtalsvert í Chile. Um 16 eiturlyfjasalar hafa verið handteknir það sem af er árinu, og eru þeir flestir konur á aldrinum 60-80 ára. Meðal þeirra sem lögreglan hefur handtekið eru tvær sjötugar konur sem voru með tvö kíló af kókaíni á sér. 

„Þeir sem stjórna eiturlyfjasölunni eru farnir að ráða til sín eldra fólk af því að það fellur ekki að ímyndinni um hinn hefðbundna eiturlyfjasala. Eldra fólkið er líka líklegra til að fá hjálp frá nágrönnum sínum,“ hefur dagblaðið El Mercurio eftir  Claudio Salazar, yfirmanni eiturlyfjasveitarinnar.

„Eiturlyfjasalan hjálpar þeim að vinna sig út úr fátæktinni. Nágrannarnir kvarta ekki af því að þeir vita að þá bjóða þeir hættunni heim.“

Meðal hinna handteknu eru tvær vinkonur á áttræðisaldri sem fjölmiðlar í Chile hafa kallað „ömmurnar frá Providencia,“ eftir hverfinu sem þær deildu húsi í. Þær voru teknar með kókaín sem metið var á 80.000 dollara eða rúmlega 10 milljónir króna.

Flestar kvennanna sem hafa verið handteknar voru ekki fyrir á sakaskrá, en vekja athygli eiturlyfjasalanna af því að þær búa í fátækum hverfum, fá ekki nógan lífeyri til að lifa á og eru of gamlar til að fá nýja vinnu, segir lögreglan. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka