Portúgalir fresta risaframkvæmdum

José Socrates forsætisráðherra að halda ræðu.
José Socrates forsætisráðherra að halda ræðu. JOSE MANUEL RIBEIRO

José Socrates, forsætisráðherra Portúgals, hefur tilkynnt um seinkun á nokkrum stórum opinberum verkefnum, til þess að draga úr fjárlagahalla hins opinbera þar í landi á þessu ári. Þarlendir fjölmiðlar segja frá þessu í dag.

„Ríkisstjórnin hefur ákveðið að minnka hallanna á þessu ári í 7,3% af landsframleiðslu," sagði Socrates við blaðamenn í gærkvöldi, eftir að leiðtogar landa á evrusvæðinu hittust í Brussel. Áður hafði verið tilkynnt um að hallinn yrði skorinn úr 9,4% niður í 8,3% af landsframleiðslu. Vonast er til þess að hann verði komið undir 3% markið sem er áskilið í evrusamstarfinu árið 2013.

Meðal annars verður byggingu nýs flugvallar í Lissabon frestað og þriðju brúnni yfir ána Tagus sömuleiðis. Henni er ætlað að bera meðal annars teina fyrir háhraðalest á milli Lissabon og Madrídar.

„Þessi verkefni eru samt algjörlega nauðsynleg fyrir nútímavæðingu þessa lands, en ég held að það sé skynsamlegt að bíða eftir því að fjárhagsástandið komist í jafnvægi áður en farið er af stað með þau," sagði Socrates.

Nú þegar er búið að frysta laun opinberra starfsmanna fram til ársins 2013 og setja lægra þak á ýmsar bætur, svo sem atvinnuleysisbætur. Þær aðgerðir hafa framkallað bæði mótmæli og verkföll í landinu.

Áætlað er að bygging nýja flugvallarins muni kosta um 4,9 milljarða evra og bygging nýju brúarinnar yfir Tagus um 1,9 milljarða evra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka