Kolaskortur veldur rafmagnsleysi í Kína

Kolum mokað í orkuveitu í Hubei héraði í Kína þann …
Kolum mokað í orkuveitu í Hubei héraði í Kína þann 14. desember 2010. STRINGER SHANGHAI

Rafmagnslaust er nú á stórum svæðum í Kína vegna alvarlegs kolaskorts, í kjölfar aukinnar eftirspurnar vegna kuldakasts í landinu síðustu vikuna. Í norðurhéraðinu Shaanxi eiga 14 stærstu orkuveiturnar aðeins eftir birgðir til fjögurra daga og hjá tveimur orkuveitum eru birgðirnar þegar uppurnar.

Margar orkuveitur og íbúar í Shaanxi höfðu fengið tilkynningu um yfirvofandi rafmagnsleysi. Í Xi'ian, höfuðborg héraðsins, þurfa um 12.000 heimili að sætta sig við rafmagnsleysi næstu 10 daga hið minnsta.

Sambærilegur skortur er einnig yfirvofandi í öðrum héruðum, þar á meðal nágrannahéraðið Shanxi og Henan hérað í Mið-Kína auk stórborgarinnar Chongqing í suðvesturhluta landsins. Kína, sem tók við af Japan á öðrum ársfjórðungi sem stærsta hagkerfi heims, er háð kolum til að knýja um 70% af orkuþörf þjóðarinnar og er kolabrennsla stærsti mengunarvaldurinn í landinu, sem er eitt það mengaðasta í heimi. 

Til að standa undir orkuþörf kínversks iðnaðar næstu 10 árin þyrftu Kínverjar að brenna um 2 milljörðum tonna af kolum.  Kínverjar settu sér það markmið, á loftlagsráðstefnunni í Kaupmannahöfn í fyrra, að draga úr orkuneyslu á hverja einingu af vergri landsframleiðslu um 40-45% fyrir árslok 2020 frá árinu 2005.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert