Samkomulag um framtíð Kristjaníu enn um sinn

Borgarhliðið í Kristjaníu. Inngangur í fríríkið í Christianshavn, sem lengi …
Borgarhliðið í Kristjaníu. Inngangur í fríríkið í Christianshavn, sem lengi hafa staðið miklar deilur um. Nú virðist friður ríkja um staðinn, um sinn a.m.k. mbl.is/Ómar Óskarsson

Danskir stjórnmálamenn samþykktu í dag að fríríkið Kristjanía í Kaupmannahöfn fái þrifist enn um sinn. Undanfarið hefur þrengt verulega að staðnum, en ríkisstjórn Anders Fogh Rasmussen kynnti til sögunnar í mars sl. áætlun um að færa fríríkið í eðlilegt horf samfélagsins danska fyrir árið 2006. Miðju- og vinstriflokkar á danska þinginu risu til varnar íbúum Kristjaníu og féllst ríkisstjórnin á að kanna málið betur.

Í dag samþykkti síðan þingheimur frumvarp ríkisstjórnarinnar um að viðræður fari fram á milli fulltrúa Kristjaníu, varnarmálaráðuneytisins, sem á svæðið, og bæjarfélagsins Kaupmannahafnar.

Um eitt þúsund manns, þ. á m. hippar, listamenn og utangarðsfólk, búa í Kristjaníu, sem var stofnuð árið 1971 í yfirgefnum herbúðum nálægt miðborg Kaupmannahafnar. Stjórnmálamenn hafa skipst í fylkingar síðustu rúma þrjá áratugi. Sumum hefur þótt þetta spennandi og nýstárlegt fyrirkomulag á meðan aðrir hafa verið fullir vandlætingar og fordæmt staðinn sem miðstöð fíkniefnadreifingar og annarra glæpa.

Kristjanía, sem hefur dregið að sér fjölda ferðamanna þá rúmu þrjá áratugi, sem hún hefur verið til, hefur í gegnum tíðina verið talin miðstöð fíkniefnadreifingar fyrir Norðurlöndin. Í kjölfar aðgerða lögreglu í mars sl. gegn sölu og dreifingu fíkniefna dró verulega úr umfangi fíkniefnasölunnar. Talsmaður lögreglunnar í Kaupmannahöfn segir að stórlega hafi dregið úr umfangi sölunnar, sem hafi numið um 500 milljónum danskra króna, um sex milljörðum ísl. kr., árlega. Hvað það áhræri hafi ástand mála í Kristjaníu færst í eðlilegt horf.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert