Viðskiptavinum fækkar á írskum krám í kjölfar reykingabanns

Frá írskri krá í Ósló í Noregi.
Frá írskri krá í Ósló í Noregi. AP

Viðskiptavinum á krám í Dublin, höfuðborg Írlands, hefur fækkað eftir ákvörðun Íra að banna reykingar á þeim, að því er samtök kráareigenda í landinu skýrðu frá í dag. Donall O'Keeffe, framkvæmdastjóri samtakanna, sem um 700 krár í Dublin eiga aðild að, segir að viðskipti á þeim hafi minnkað um 12-15% frá því að lög sem banna reykingar á krám tóku gildi 29. mars í ár.

„Við bjuggumst við því að apríl yrði slæmur en að svo myndu hlutirnir fara batnandi. Það hefur ekki gerst og veldur okkur miklum áhyggjum,“ sagði O-Keeffe. „Þrátt fyrir að áhrifin séu ekki þau sömu á öllum krám í Dublin, er ljóst að reykingabannið hefur alvarlegar fjárhagslegar afleiðingar,“ bætti hann við.

Aiden McManus, talsmaður veitingahúsasambands Írlands, segir reykingabannið hins vegar ekki haft fælandi áhrif á matargesti. „Viðskiptin eru svipuð og í fyrra,“ sagði hann.

Írar urðu fyrstir þjóða til þess að banna reykingar á vinnustöðum, en írsku lögin sem tóku gildi í mars, voru byggð á svipuðum lögum í Kaliforníu og í New York í Bandaríkjunum. Þá tóku Norðmenn svipuð lög í gildi í dag.

Á Írlandi, hefur reykingabannið ekki farið framhjá mörgum. Þetta er meðal annars vegna skilta þar sem fram kemur að þeir sem brjóti lögin, megi búast við að verða sektaðir um 3.000 evrur, sem eru rúmlega 260.000 íslenskar krónur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka