Ríkisstjórn Bush bannað að framfylgja umdeildum fóstureyðingalögum

Dómari í San Fransisco í Bandaríkjunum kvað upp í dag að umdeild lög, sem banna fóstureyðingar eftir að meðganga er komin vel á veg, gengju gegn stjórnarskránni. Úrskurðurinn þykir áfall fyrir George W. Bush, Bandaríkjaforseta, en aðeins er hálft ár frá því hann skrifaði undir lögin.

Svæðisdómarinn Phyllis Hamilton, bannaði John Ashcroft, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, að nota lögin gegn samtökunum Planned Parenthood Federation of America, en á vegum þeirra fer um helmingur allra fóstureyðinga fram í Bandaríkjunum. Dómarinn sagði að lögin, sem eru fyrstu alríkislögin sem takmarka rétt kvenna til fóstureyðinga í 30 ár, gengju í of miklum mæli gegn tímamótaúrskurði hæstaréttar Bandaríkjanna frá árinu 1973 í máli Roe gegn Wade um fóstureyðingar.

Hún sagði meðal annars að niðurstaða réttarins væri sú að lögin gengju gegn stjórnarskrá Bandaríkjanna þar eð þau settu konum ósanngjarnar skorður hvað varðaði fóstureyðingar á öðru skeiði meðgöngu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert