Erdogan segir ekkert hæft í því að Tyrkir beiti pyntingum

Recep Tayyip Erdogan í Brussel ásamt Romano Prodi, forseta framkvæmdastjórnar …
Recep Tayyip Erdogan í Brussel ásamt Romano Prodi, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. AP

Forsætisráðherra Tyrklands, Recep Tayyip Erdogan, segir ekkert hæft í því að pyntingum sé beitt í landi sínu. Mannréttindahópar sem haldi slíku fram séu „blindaðir af hugmyndafræði“, segir Erdogan í viðtali sem þýska dagblaðið Der Tagesspiegel birtir við hann á morgun.

Í væntanlegri skýrslu frá Evrópusambandinu um umbætur í Tyrklandi segir að enn séu þar stundaðar pyntingar. Skýrslan er lykillinn að því að Tyrkir fái inngöngu í sambandið.

Skýrslan verður væntanlega birt á miðvikudaginn, en franska dagblaðið Le Monde og fréttastofan AFP hafa fengið afrit af henni. Þar segir meðal annars, að „þótt pyntingum sé ekki lengur beitt skipulega er enn að finna mörg pyntingatilfelli og einkum illa meðferð og frekari aðgerða er þörf til að binda enda á slíkt“.

Í viðtalinu við Der Tagesspiegel var Erdogan spurður álits á skýrslum mannréttindasamtaka sem fullyrða að pyntingum sé enn beitt í Tyrklandi. Hann sagði ekkert hæft í slíkum fullyrðingum.

„Í öllum þessum skýrslum um pyntingar er engar sannanir að finna. Það eru engar skipulagðar pyntingar. Athuganir Evrópusambandsins sýndu fram á það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert