Leiðtogi þýskra hægriöfgamanna kann að sæta lögsókn vegna ummæla

Udo Voigt, leiðtogi flokks hægriöfgamanna, Þjóðernislýðræðisflokksins (NPD), í Þýskalandi, kann að verða sóttur til saka fyrir að leggja til að ný kanslarahöll verði reist ofan á helfararminnismerkinu í Berlín, að því er saksóknarar sögðu í dag. Þýska sjónvarpið, ARD, tók ummæli Voigts upp á myndband með falinni myndavél á samkomu flokksins í Senden í Bæjaralandi.

„Þetta er ekki helfararminnismerki fyrir okkur, en við þökkum fyrir að þegar skuli vera búið að reisa grunninn að nýrri kanslarahöll þýska ríkisins,“ mun Voigt hafa sagt á samkomunni.

Þegar ARD spurði hann um ummælin svaraði hann: „Já, ég held að það sé kominn tími til að Þjóðverjar varpi sektarkenndinni fyrir róða nú þegar 60 ár eru liðin frá stríðslokum.“

Um minnismerkið sagði hann: „Það er úr járnbentri steinsteypu. Það mun standa öldum saman. Því legg ég til, að þegar ný stjórn verður mynduð í Þýskalandi verði ríkiskanslarahöllin reist á þessari undirstöðu.“

NPD hefur gengið vel í kosningum í Þýskalandi undanfarið, einkum í Saxlandi í síðasta mánuði, þar sem hann fékk 9,2% atkvæða, er dugði til að flokkurinn fékk sæti á sambandslandsþinginu í fyrsta sinn í 36 ár.

Þýsk stjórnvöld hafa reynt að banna starfsemi NPD, en í mars í fyrra hafnaði hæstiréttur landsins slíku banni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert