Hægri öfgaflokkar í Þýskalandi mynda kosningabandalag fyrir 2006

Tveir stærstu hægri öfgaflokkarnir í Þýskalandi hafa tilkynnt að þeir muni mynda bandalag fyrir þingkosningarnar 2006 í því augnamiði að ná sæti á þinginu í Berlín í fyrsta sinn í marga áratugi. Leiðtogi Þýska þjóðarbandalagsins (DVU), milljónamæringurinn Gerhard Frey, greindi frá þessu í viðtölum við þýska fjölmiðla nú um helgina.

Frey sagði að hann og Udo Voigt, leiðtogi nýfasistaflokksins Þjóðarlýðræðisflokksins (NPD), myndu eiga fundi nú í vikunni til að ganga endanlega frá málinu. Tilraunir til að fá þriðja hægriöfgaflokkinn, Repúblíkanaflokkinn, með í bandalagið mistókust.

NPD er mesti öfgaflokkurinn af hægriflokkunum í Þýskalandi og hlaut 9,2 prósenta fylgi í kosningum til þingsins í Saxlandi í síðasta mánuði og fékk þar sæti í fyrsta sinn síðan 1968.

Síðan í stríðslok hefur einungis einn hægri öfgaflokkur náð sæti í neðri deild þýska þingsins, Bundestag, en það var Þýski ríkis- og lagaflokkurinn sem átti þar fulltrúa 1949-53, eftir að hafa fengið aðeins 1,8% atkvæða í kosningum.

Voigt segir í viðtali við Der Spiegel, sem kemur út í dag, að NPD styðji heils hugar við bakið á þrem nýnasistum sem bjóði sig fram til stjórnar flokksins. „Við viljum senda ákveðin skilaboð,“ segir Voigt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert