Mikil reiði í garð Frakka á Fílabeinsströndinni

Mótmælendur grýta franska herstöð í Abidjan en myndin var tekin …
Mótmælendur grýta franska herstöð í Abidjan en myndin var tekin í desember sl. AP

Harðlínumenn á Fílabeinsströndinni hvöttu stuðningsmenn sína í dag til að halda áfram árásum á franska friðargæsluliða. Franskir hermenn lentu í gær í átökum við herflokka úr stjórnarhernum og múgur vopnaður sveðjum leitaði að frönskum ríkisborgurum í borginni. Bæði Frakkar og öryggisráð Sameinuðu þjóðanna kröfðust þess að Laurent Gbagbo, forseti landsins, kæmi á lögum og reglu á ný.

Mamadou Coulibaly, þingforseti Fílabeinsstrandarinnar, sagði í viðtali við franska útvarpsstöð að franskir hermenn hefðu fellt að minnsta kosti 30 manns og sært 100 í borgunum Abidjan og Yamassoukro til að hefja fyrir dauða 9 franskra hermanna.

Frakkar ráða alþjóðaflugvellinum í Abidjan, stærstu borg Fílabeinsstrandarinnar, eftir að hafa grandað öllum flugher landsins, tveimur orrustuflugvélum og fimm herþyrlum. Var það gert eftir að flugherinn réðist á búðir franskra friðargæsluliða í norðurhluta landsins. Níu franskir hermenn og einn bandarískur ríkisborgari, létu lífið.

Leiðtogar vopnaðra sveita á Fílabeinsströndinni hvöttu almenning í morgun til að fara út á götur og ganga til flugvallarins í Abidjan, umkringja frönsku herstöðina þar og mynda „mannlegan skjöld" umhverfis forsetahöl Gbagbos.

„Sýnum Frakklandi að við erum fullvalda ríki," sagði Genevieve Bro Grebe, leiðtogi vopnaðs flokks kvenna.

Tugir þúsunda manna vopnaðir sveðjum, öxum og lurkum gengu um götur Abidjan í gær. Múgurinn umkringdi franska herstöð og frönsku hermennirnir skutu viðvörunarskotum og beittu táragasi til að dreifa múgnum.

Þá gekk múgurinn hús úr húsi í leit að frönskum ríkisborgurum og brenndu frönsk fyrirtæki og að minnsta kosti tvo franska skóla. Byssuskot heyrðust í alla nótt í sumum hverfum borgarinnar.

Franskar herþyrlur skutu viðvörunarskotum í morgun þegar fólk fór að safnast saman við flugvöllinn í Abidjan og stærstu brúr í borginni. Fullyrt var að sex manns hið minnsta kosti hefðu látið lífið, þar á meðal tvær stúlkur sem hefðu stokkið af brú til að forðast skot Frakkanna.

Ekki er vitað hvort útlendingar í borginni hafi látið lífið.

Franskar hersveitir og hersveitir stjórnarhersins skiptust í gær á skotum á flugvellinum í Abidjan þegar hermenn Fílabeinsstrandarinnar reyndu að eyðileggja franskar herflugvélar þar. Einn franskur hermaður særðist og frönsk flugvél laskaðist, að sögn franskra embættismanna.

Ofbeldisaldan hófst á fimmtudag þegar stjórnarher landsins hóf að nýju árásir á bæi í norðurhluta landsins sem eru á valdi uppreisnarmanna. Borgarastríð hófst í september 2002 þegar uppreisnarmenn reyndu valdarán. Fílabeinsströndin er fyrrum frönsk nýlenda og Frakkar höfðu milligöngu um það árið 2003 að gert var friðarsamkomulag en ekki hefur tekist að framfylgja því vegna þess að ríkisstjórn Gbagbos krefst þess að uppreisnarmenn afvopnist fyrst.

Frakkar eru með um 4 þúsund manna herlið og Sameinuðu þjóðirnar um 6 þúsund manna friðargæslulið á svæði milli norðurhlutans sem uppreisnarmenn ráða, og suðurhlutans sem stjórnvöld ráða. Almenn er talið að Frakkar hafi varið ríkisstjórn Gbagbos fyrir árásum uppreisnarmanna en ákveðnir hópar stuðningsmanna forsetans fullyrða að Frakkar standi með uppreisnarmönnum.

Í gær gerðu tvær Sukhoi orrustuflugvélar sprengjuárás á búðir Frakka nálægt Bouake í norðurhluta landsins. Viðbrögð Frakka voru þau að eyðileggja orrustuflugvélarnar og fimm herþyrlur á flugvellinum í Yamoussoukro.

Öryggisráð SÞ boðaði til neyðarfundar í gærkvöldi og krafðist þess að hernaðaraðgerðum af hálfu stjórnvalda á Fílabeinsströndinni yrði tafarlaust hætt. Þá lagði ráðið áherslu á að franskar hersveitir og hersveitir SÞ sé heimilt að grípa til allra nauðsynlegra ráða til að viðhalda friði í landinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert