Réttarhöld yfir fyrrum bílstjóra bin Laden stöðvuð

Frá Guantanamo.
Frá Guantanamo. AP

Umdeildum herréttarhöldum yfir fyrrum bílstjóra Osama bin Laden í fangabúðum Bandaríkjahers við Guantanamo-flóa á Kúbu var hætt í gær. Dómstóll í Washington stöðvaði réttarhöld yfir Salih Ahmed Hamdan, 34 ára gömlum Jemena.

Sagði dómstóllinn að skilyrði, sem fyrir hendi yrðu að vera vegna réttarhaldanna, hefðu ekki verið uppfyllt. Réttarhöldin gætu ekki talist sanngjörn og Hamdan hefði ekki verið haldið með lögmætum hætti í Guantanamo.

Hamdan hefur verið í haldi Bandaríkjastjórnar í Guantanamo frá því snemma árs 2002, auk um 550 annarra fanga, sem teknir voru höndum í Afganistan og í öðrum aðgerðum Bandaríkjamanna gegn hryðjuverkum, sem gripið var til eftir árásirnar á Bandaríkin 11. september 2001.

James Robertson, dómari í málinu sagði að ekki mætti rétta yfir Hamdan fyrir herdómstóli fyrr nema dómsúrskurður lægi fyrir um að hann teldist ekki stríðsfangi. Þá sagði dómarinn að hömlum sem valda því að Hamdan fær ekki að fylgjast réttarhöldunum að öllu leyti og heyra um öll gögn sem lögð eru fram gegn honum, verði að aflétta. Í úrskurði dómarans sagði einnig að flytja verði Hamdan milli álma í Guantanamo. Honum er nú haldið í sérstakri álmu fyrir fanga sem eiga yfir höfði sér yfirheyrslur herdómstóls, en hann eigi að flytja í álmu þar sem almennir fangar dveljast.

Bandaríkjaher hefur sagt að Hamdan sé félagi í al-Qaeda sem hafi verið bílstjóri Osama bin Laden í Afganistan árið en hann var handtekinn.

Úrskurður dómstólsins í Washington þykir áfall fyrir bandarísk stjórnvöld. Herlögfræðingar hafa haldið því fram að fangar í Guantanamo eigi ekki að vera skilgreindir sem stríðsfanga í samræmi við Genfar-sáttmálann, því þeir hafi ekki barist fyrir ríki, heldur fyrir al-Qaeda samtökin. Dómstóllinn í Washington hafnaði þeirri röksemdafærslu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert