Ný stjórn Palestínumanna formlega samþykkt

Þingmenn heimastjórnarþingsins voru sendir heim í gær á meðan Abbas …
Þingmenn heimastjórnarþingsins voru sendir heim í gær á meðan Abbas leitaði lausnar á vandanum. AP

Heimastjórnarþing Palestínumanna staðfesti formlega ráðherralista stjórnar Ahmeds Qureia, skipaðs forsætisráðherra, í dag með 54 atkvæðum gegn 12, en miklar deilur hafa staðið um skipan stjórnarinnar á þinginu undanfarna daga.

Nærri helmingur hinna nýju ráðherra hafa doktorsgráðu og einungis nokkrir þeirra voru ráðherrar í valdatíð Yassers Arafats, fyrrum leiðtoga Palestínumanna. Þá þykir þróun undanfarinna daga hafa veikt mjög stöðu Qureias en hann fékk ekki meirihluta þingmanna til að greiða atkvæði með stjórninni fyrr en Mahmud Abbas, leiðtogi Palestínumanna, hafði hlutast til um málið og sannfært miðstjórn Fatah-hreyfingarinnar um að nú væri ekki rétti tíminn til innbyrðis átaka meðal Palestínumanna.

Qureia átti á hættu að missa umboð sitt til stjórnarmyndunar eftir að þingmenn úr Fatah-hreyfingunni neituðu að samþykkja fyrri tillögu hans um skipan í ráðherraembætti og ólíklegt er nú talið að hann sitji lengur í embætti forsætisráðherra en fram að þingkosningunum sem fram eiga að fara á palestínsku sjálfstjórnarsvæðunum í sumar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka