Sýrlendingar boða frekari brottflutning frá Líbanon

Utanríkisráðuneyti Sýrlands lýsti því yfir í dag að Sýrlendingar ætli að halda áfram að draga herlið sitt frá Líbanon samkvæmt samkomulagi frá árinu 1989. Þá segir í yfirlýsingunni að Sýrlendingar séu boðnir og búnir til að aðstoða Líbani við rannsókn morðsins á Rafik Hariri, fyrrum forsætisráðgerra Líbanons.

"Hinn mikilvægi brottflutningur hersins, sem þegar er hafinn, mun halda áfram í samræmi við Taif-samkomulagið um Líbanon," segir m.a. í yfirlýsingunni sem er fyrsta opinbera yfirlýsing Sýrlendinga um málefni Líbanons frá morðinu á Hariri en ásakanir hafa komið fram um að yfirvöld í Sýrlandi hafi tengst því.

Þá segir að yfirvöld í Damaskus séu reiðubúin til að bjóða Líbönum hverja þá aðstoð við morðrannsóknina sem þeir þurfi á að halda „enda hafi þau mikinn hag af því að málið verði upplýst sem fyrst“.

Það vekur einnig athygli að talað er um brottflutning hersins í yfirlýsingunni en ekki tilflutning herdeilda eins og venja er fyrir í yfirlýsingum sýrlenskra stjórnvalda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka