Danir senda herskip til Hans Ø

Hans Ø er aðeins 1,3 ferkílómetrar að stærð og þakin …
Hans Ø er aðeins 1,3 ferkílómetrar að stærð og þakin ís mest allt árið.

Danska herskipið Tulugaq er á leiðinni til Hans Ø, eyjarinnar undan norðvesturströnd Grænlands sem bæði Danir og Kanadamenn gera tilkall til. Gert er ráð fyrir að skipið komi til eyjarinnar eftir nokkra daga ef færi gefst en mikill hafís er á þessum slóðum.

„Þessi sigling er hluti af hefðbundnu eftirliti okkar með danskri efnahagslögsögu," er haft eftir Alex Jensen, talsmanni danska sjóhersins.

Árið 1973 drógu Kanadamenn og Danir landamæralínu um mitt Naressund sem er miðja vegu milli Grænlands og Ellesmere Island í Kanada. Löndin ákváðu hins vegar að tekin yrði ákvörðun um það síðar hvoru landinu Hans Ø og fleiri eyjar á þessu svæði tilheyrðu.

Síðan hafa deilur milli þjóðanna um eyjuna stundum komið upp á yfirborðið og þá gjarnan með nokkuð sérstökum hætti. Tom Høyem, þáverandi Grænlandsmálaráðherra, gekk á land á eyjunni árið 1984 og gróf þar koníaksflösku ásamt miða þar sem stóð: Velkomin til Danmerkur. Nú nýlega lék Bill Graham, varnarmálaráðherra Kanada, þetta eftir, gekk á land á eyjunni, og kanadískir hermenn grófu þar viskíflösku og reistu kanadíska fánann. Danir tóku þetta óstinnt upp og sendu kanadískum stjórnvöldum formleg mótmæli.

„Ef við komumst til eyjarinnar munum við reisa þar nýjan danskan fána. Við reynum að skipta um fána eins oft og hægt er vegna þess að þeir rifna í heimskautaveðrinu," sagði Jensen. „Eins og útlitið er nú er ekki víst að skipið komist til eyjarinnar vegna hafíss. En við reynum að komast eins langt norður og hægt er.

Dönsk herskip hafa aðeins þrívegis komist til eyjarinnar frá árinu 1988 vegna þess að hún er oft umlukin þykkum ís.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka