Í Danmörku býr fjöldinn allur af Íslendingum og segir Þórir Jökull Þorsteinsson, sendiráðsprestur í Kaupmannahöfn, málið ekki snerta Íslendinga neitt öðruvísi en Dani. "Hér er þetta mál alveg ofan í okkur og Danmörk í raun upprunaland þessa óróa. Helgin sem nú er liðin var mjög viðburðarrík og mjög sérkennileg stemning í landinu," segir Þórir Jökull og bætir við að óhætt sé að segja að fólki sé órótt. Hann segir að það sé sama hvar mann beri niður í höfuðborginni, þar ræði menn mótmælin sem blossað hafa upp í kjölfar birtinganna og menn séu skelkaðir að sjá æstan múg brenna sendiráð Dana í fréttum sjónvarps.
"Danir taka nú þann pól í hæðina að það sé ekki lengur spurning um hvort, heldur hvenær hryðjuverk verða framin."
Bjarney Sif Kristinsdóttir starfar í Kaupmannahöfn sem snyrtifræðingur, hún getur tekið undir orð Þóris um að lítið sé um fordóma, alla vega á yfirborðinu, og m.a. hafi sms-skeyti verið send manna á milli til að draga úr óróleika. "Fólk var hvatt til að brosa framan í kaupmennina, sem margir hverjir eru af tyrknesku bergi brotnir, og kaupa kannski eitthvað smá aukalega í stað þess að vera að sniðganga verslanir þeirra og vera með mótþróa sem elur á óróanum," segir Bjarney Sif.
Hún segir það ekki leyna sér að íbúar séu nokkuð órólegir og hún sé sjálf nokkuð smeyk við að nota almenningssamgöngur í borginni. Þrátt fyrir vaxandi óróleika segist hún fá merki sjá um aukna löggæslu, hins vegar segir Bjarney að samfélagið snúist aðeins um málið.
Spurð um hvort hún haldi að íbúar séu í raunverulegri hættu í kjölfar hótana öfgamanna segist Bjarney alla vega vera nokkuð fegin að hún sé að flytja til Íslands á nýjan leik næstkomandi fimmtudag. "Ég er eiginlega bara mjög fegin, svona á þessum tímamótum. En það er vonandi að það náist friður í þessu áður en árásir verða gerðar."
Auður Jónsdóttir, rithöfundur og blaðamaður, býr og starfar í Kaupmannahöfn. Hún segir hættuna á árásum hafa verið til staðar frá því að Danir sendu fyrst hermenn til Íraks, nú komi það hins vegar til að fleiri vita hvar Danmörk er og kastað hafi verið meira ljósi á landið. "Margir hafa kannski haldið að Danmörk væri einhver hluti af Kanada fyrir nokkrum dögum en nú er það alveg á hreinu hvar landið liggur."
Auður efast um að Íslendingar í Kaupmannahöfn séu mikið að kippa sér upp við þetta mál, það geri þeir alla vega ekki sem hún hefur rætt við að undanförnu. "Ég held líka að það sé fast í fólki að láta þá sem eru með hótanir ekki breyta sínu lífi," segir Auður en bætir við að mönnum hafi brugðið við að sjá kveikt í sendiráði Dana í Damaskus og ræðismannaskrifstofunni í Beirút.