Dræm kjörsókn í Nepal vegna hótana og ofbeldisverka

Hermaður stendur vörð í Katmandu, höfuðborg Nepal, í dag.
Hermaður stendur vörð í Katmandu, höfuðborg Nepal, í dag. Reuters

Fyrstu þingkosningarnar í Nepal í sjö ár voru haldnar í dag, en mikið var um ofbeldisverk uppreisnarmanna og skaut lögregla til bana liðsmann stjórnarandstöðunnar. Kosningaþátttaka var dræm og skutu hermenn á mótmælendur og hafa í það minnsta sex látið lífið.

Uppreisnarmenn maóista og nær allir stjórnarandstöðuflokkarnir hétu því að trufla kosningarnar eftir fremsta megni þar sem þær væru marklausar. Stjórnvöld svöruðu því til að þeir sem reyndu að hindra framgang kosninga yrðu skotnir.

Í bænum Dang í suðvestur hluta landsins greindu stjórnvöld frá því að hermenn hafi „neyðst til að skjóta“ á um 150 mótmælendur sem reyndu að stöðva kosningarnar. Einn féll og annar særðist. Kjörstaðir lokuðu kl. 11.15 að íslenskum tíma, kl. 17 að staðartíma í Nepal, og var kjörsókn 8% miðað við fyrstu talningu upp úr hádegi. Niðurstaðna kosninganna er þó ekki að vænta fyrr en á morgun.

Nokkrum tímum áður en kjörstaðir opnuðu gerðu maóistar árás á bæinn Dhankutra í austri og skutu sprengjum að 12 ríkisstofnunum og gjöreyðilögðu bankabyggingu, að sögn lögreglu þar. Þeir drápu einn lögreglumann og einn borgara og tóku sjó embættismenn og þrjá lögreglumenn í gíslingu. Tveir uppreisnarmanna féllu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert