Ísraelsstjórn sökuð um að losa sig við geislavirkan úrgang á Gólan-hæðum

Sýrlendingar horfa yfir til sýrlenska bæjarins Majdal Shams á Gólanhæðum …
Sýrlendingar horfa yfir til sýrlenska bæjarins Majdal Shams á Gólanhæðum en hann er hernuminn af Ísraelum. AP

Bashar Ja'afari, sendiherra Sýrlands á 65 þjóða ráðstefnu um afvopnun, sakaði Ísraelsstjórn í dag um að losa sig við geislavirkan úrgang á Gólan-hæðum. Sendiherra Ísraela á ráðstefnunni sagði hann fara með rangt mál en neitaði þó ekki beint ásökuninni. Ja'afari sagði Arabalöndin öll staðráðin í því að mynda svæði á Mið-Austurlöndum þar sem engin gjöreyðingarvopn væri að finna.

Sendiherra Sýrlands sagði að Ísraelar nytu þó stuðnings ríkja sem byggju yfir kjarnavopnum og hlýddi ekki tilmælum alþjóðasamfélagsins og losaði sig við geislavirkan úrgang á „sýrlensku Gólan-hæðunum“ eins og hann orðaði það.

Itzhak Levanon, sendiherra Ísraels, sagði ræðu Ja'afari fulla af endurteknum og ónákvæmum upplýsingum en svaraði þó ekki beint ásökuninni um Gólan-hæðir. Levanon sagði fréttamönnum AP nokkru síðar að hann neitaði henni. Gólan-hæðir hafa heyrt undir Ísrael frá árinu 1967.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert