Sýning á skopmyndum um Helförina opnuð í Íran

Gyðingur skoðar mynd sem tekin var í Birkenau-búðunum í seinni …
Gyðingur skoðar mynd sem tekin var í Birkenau-búðunum í seinni heimstyrjöldinni en myndin er til sýnis í Yad Vashem-minningarsafninum um helförina í Jerúsalem. AP

Sýning á teikningum af Helför gyðinga í seinni heimsstyrjöldinni var opnuð í Íran í dag. Þetta er svar íransks dagblaðs við skopmyndum af Múhameð spámanni sem birtust í Jyllands Posten í fyrrahaus. Alls eru 204 myndir til sýnis, bæði frá Íran og öðrum löndum, en myndirnar þykja bera keim af skoðunum forseta landsins, Mahoud Ahmadinejad, sem sagði í fyrra að Helförin væri goðsögn og að leggja ætti Ísrael í rúst.

Á einni teikningunni sést Frelsisstyttan í New York með bók um Helförina í annarri hendi en með hinni heilsar hún að sið nasista. Masoud Shojah, forstöðumaður safnsins sem sýnir myndirnar, segir 1.200 myndir hafa verið sendar inn. Myndirnar sem sýndar eru voru valdar úr þeim en auglýst var eftir umsóknum í febrúar s.l. Dagblaðið Hamshahri stendur að sýningunni.

Blaðið segir sýningunni ætlað að kanna hversu umburðarlynd Vesturlönd væru gagnvart slíkum skopmyndum, þ.e. af fjöldamorðum á sex milljónum gyðinga í heimsstyrjöldinni síðari. Umsóknir bárust m.a. frá Bandaríkjunum, Indónesíu og Tyrklandi en sýningunni lýkur 13. september. Þá verður valin besta myndin og hlýtur verðlaunahafinn jafnvirði um 860.000 kr.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert