Frakkar lýsa „alvarlegum áhyggjum“ af fyrirheitum N-Kóreu um kjarnorkutilraun

N-Kóreskir hermenn horfa suður yfir landamærin.
N-Kóreskir hermenn horfa suður yfir landamærin. AP

Frönsk stjórnvöld segjast hafa „alvarlegar áhyggjur“ að tilkynningu Norður-Kóreumanna í dag að þeir hyggist gera tilraun með kjarnavopn. Talsmaður franska utanríkisráðuneytisins sagði að slík tilraun myndi grafa hættulega undan stöðugleika í Austur-Asíu og alþjóðaöryggi. Sagði hann Frakka hvetja Norður-Kóreumenn til að falla frá þessum áætlunum.

Viðbúnaðarstig í Suður-Kóreu hefur verið hækkað í kjölfar tilkynningar norðanmanna í morgun, að því er skrifstofa forseta S-Kóreu greindi frá í dag. Hafnar væru viðræður við nágrannaríkin um hugsanleg viðbrögð.

Í tilkynningu N-Kóreumanna í morgun sagði að væntanleg kjarnorkutilraun væri liður í styrkingu varna landsins í ljósi ítrekaðrar ógnunar sem því stafaði af Bandaríkjunum. Fyllsta öryggis yrði gætt við gerð tilraunarinnar. Norður-Kóreumenn hafa lýst því yfir að þeir eigi kjarnavopn, en ekki er vitað til þess að þeir hafi nokkurntíma gert tilraun með slík vopn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka