Norður-Kóreumönnum verði gerð grein fyrir afleiðingum kjarnorkutilraunar

Suður-Kóreanskur hermaður vaktar landamærin við Norður-Kóreu.
Suður-Kóreanskur hermaður vaktar landamærin við Norður-Kóreu. AP

Forseti Suður-Kóreu, Roh Moo-hyun, hvatti til þess í dag að gripið yrði til aðgerða í því skyni að sýna Norður-Kóreumönnum fram á hvaða afleiðingar það myndi hafa fyrir þá að gera tilraun með kjarnavopn. Hann útskýrði ekki nánar hverjar þessar afleiðingar myndu verða. Roh hvatti ennfremur til þess að róðurinn yrði hertur til að ná samkomulagi við norðanmenn um að þeir falli frá fyrirætlunum sínum.

Suður-Kóreskur ráðherra sagði í dag á fundi með þingmönnum að engin afdráttarlaus merki væri að sjá um að kjarnorkutilraun norðanmanna væri yfirvofandi. Þó yrðu að teljast miklar líkur á að þeir myndu í raun og veru gera slíka tilraun ef ekki tækist að hefja á ný sex-hliða viðræður um kjarnorkuáætlun þeirra.

Stjórnvöld í Norður-Kóreu tilkynntu í gær að þau hygðust gera tilraun með kjarnavopn og væri það liður í að styrkja varnir landsins í ljósi fjandsamlegrar afstöðu Bandaríkjamanna til landsins. Þetta er í fyrsta sinn sem kommúnistastjórnin í N-Kóreu hótar að gera tilraun með kjarnavopn, en hún hefur nokkrum sinnum áður lýst því yfir að hún hafi yfir slíkum vopnum að ráða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka