Ungir múslímar í Bretlandi öfgasinnaðri en foreldrar þeirra

Sá þrýstingur sem yfirvöld í Bretlandi beita unga múslíma í landinu til að reyna að fá þá til að aðlagast bresku þjóðfélagi hefur haft þveröfug áhrif samkvæmt niðurstöðu nýrrar skoðanakönnunar sem framkvæmd var á vegum samtakanna Policy Exchange. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.

Samkvæmt niðurstöðu könnunarinnar segist einn af hverjum átta breskum múslímum á aldrinum 16 til 24 ára dást að liðsmönnum hryðjuverkasamtakanna al-Qaeda og baráttu þeirra gegn vesturveldunum. Þá segist tveir af hverjum fimm vilja að íslömsk Sharia-lög verði tekin upp á Bretlandi og þrír af hverjum fimm segjast vilja að múslímakonur í landinu hylji andlit sín.

Könnunin sýnir einnig að ungir múslímar í Bretlandi eru róttækari en foreldrar þeirra. Þannig vilja einungis 19% breskra múslíma sem eru eldri en 55 ára að múslímakonur í landinu hylji andlit sín.

„Það er greinilega ágreinungur um það á meðal múslíma hvort þeir eigi að viðurkenna hið bresks lýðræði eða ekki,” segir Munira Mirza, ein þeirra sem unnu að framkvæmd könnunarinnar.

„Þetta eru ótrúlegar niðurstöður sem staðfesta þær áhyggjur sem margir okkar hafa haft um að við höfum ekki gengið nógu langt í því að ræða þessi mál,” segir Shahid Malik, múslímskur þingmaður breska Íhaldsflokksins í viðtali við breska blaðið The Daily Telegraph.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka