Palestínumenn reyna að stöðva innbyrðis átök með árás á Ísraela

Palestínumenn mótmæla átökum liðsmanna Fatah og Hamas í Ramallah á …
Palestínumenn mótmæla átökum liðsmanna Fatah og Hamas í Ramallah á Vesturbakkanum í gær. AP

Palestínsku Jihad-samtökin hafa lýst ábyrgð á sjálfsmorðsárásinni sem varð þremur vegfarendum í strandbænum Eilat í Ísrael að bana í morgun á hendur sér og segir talmaður samtakanna markmið hennar hafa verið það að binda endi á innbyrðis átök Palestínumanna. Talsmenn Hamas-samtakanna og Fatah-hreyfingarinnar, stærstu fylkinga Palestínumanna, hafa þó brugðist við fréttum af árásinni á ólíkan hátt. Þetta kemur fram á fréttavef Ha’aretz.

Talsmaður Jihad segir árásina hafa verið samvinnu Jihad, Al Aqsa samtakanna, sem eru herskár armur Fatah-hreyfingarinnar og óþekktra samtaka sem kallast Her hinna trúuðu. Ahmad Abdul Rahman, talsmaður Fatah, fordæmdi árásina hins vegar harðlega í morgun og sagði árásir á óbreytta borgara vera andstæðar stefnu samtakanna.

Fawzi Barhoum, talsmaður Hamas-samtakanna sagði árásina hins vegar eðlilega afleiðingu hernaðarstefnu Ísraela á Gasasvæðinu og Vesturbakkanum og hunsun Ísraela og alþjóðasamfélagsins á heimstjórn Hamas. Þá sagði hann betra að Palestínumenn gerðu árásir á Ísraela en að þeir berðust hver við annan. „Það rétta er að vopnum Fatah sé beitt gegn hernámsliðinu en ekki gegn Hams,” sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka