Palestínumenn taka ákvörðun um lausn fanga með fyrirvara

Saeb Erakat, einn nánasti samstarfsmaður Mahmoud Abbas leiðtoga Palestínumanna, fagnaði í dag þeirri ákvörðun Ísraela að sleppa 250 Palestínumönnum úr fangelsum í Ísrael. Hann gagnrýndi þó hvernig staðið var að ákvörðuninni en ekkert samráð var haft við yfirvöld á palestínsku sjálfstjórnarsvæðunum áður en ákvörðunin var tilkynnt opinberlega.

“Lausn á vanda palestínskra fanga verður ekki fundin með einhliða aðgerðum,” sagði hann.

Samkvæmt ákvörðun Ísraelsstjórnar verður einungis föngum sem tilheyra Fatah-samtökum Abbas, sleppt úr haldi að þessu sinni og vísaði Riyad al-Malki, upplýsinga- og dómsmálaráðherra palestínsku heimastjórnarinnar, til þess er hann svaraði spurningum blaðamanna um málið í dag. “Við vonumst til þess að allir fangar verði látnir lausir og ríkisstjórn okkar mun vinna að því,” sagði hann. “Við munum halda áfram að þrýsta á yfirvöld í Ísrael um að allir fangar verði látnir lausir.”

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka