23 tjöld fjallgöngumanna fuku á Everestfjalli

Everestfjall.
Everestfjall.

Að minnsta kosti 23 tjöld fjallgöngumanna fuku í búðum í 6.300 metra hæð á Everestfjalli í Nepal í vikunni. Engan sakaði en metfjöldi fjallgöngumanna freistar þess nú að komast á hæsta tind jarðar þar sem í ár er hálf öld liðin frá því Nýsjálendingurinn Edmund Hillary og sherpinn Tenzing Norgay klifu fjallið fyrstir. Veðurfræðingar spá nú góðu veðri á fjallinu eftir tvo daga og er þá búist við að hóparnir, sem nú bíða í fjallinu, freisti þess að ganga alla leið á tindinn sem er í 8.848 metra hæð yfir sjávarmáli.

Hvass vestanvindur hefur verið á Everest undanfarna daga og á tindinum hefur verið allt að 35 stiga frost.

Mikið er um dýrðir í Nepal í tilefni af því að 50 ár eru liðin frá því fjallið var fyrst sigrað. Hefur öllum þeim sem gengið hafa á fjallið verið boðið til landsins, en rúmlega þúsund manns hafa unnið þetta afrek, þar á meðal fjórir Íslendingar, þeir Björn Ólafsson, Einar K. Stefánsson og Hallgrímur Magnússon sem gengu á tindinn 21. maí 1997 og Haraldur Örn Ólafsson sem gekk á fjallið 16. maí í fyrra. Um 700 Nepalbúar hafa gengið á fjallið.

Von er á Hillary til Nepals en Tenzing Norgay er látinn. Meðal fleiri kunnra fjallgöngumanna sem mæta til hátíðahaldanna eru Ítalinn Reinhold Messner og Austurríkismaðurinn Peter Habeler en þeir gengu fyrstir á fjallið án þess að nota aukasúrefni; og Junko Tabai sem varð árið 1975 fyrsta konan til að ganga á tindinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert