Stóri hvellur varð í algjörri þögn

Mynd, sem tekin var úr Hubble-sjónaukanum langt út í alheiminn …
Mynd, sem tekin var úr Hubble-sjónaukanum langt út í alheiminn og sýnir um 10.000 stjörnuþokur eða vetrarbrautir. Hljóðin þarna úti ku ekki vera neitt sérstök. NASA

Stjörnufræðingar við Háskólann í Virginíu í Bandaríkjunum hafa greint svokallaða bakgrunnsgeislun, sem varð til 400.000 árum eftir Stóra hvell. Samkvæmt niðurstöðum rannsókna vísindamannanna varð alheimurinn ekki til við mikinn og háværan hvell heldur var um að ræða lágt hvísl sem breyttist í daufan gný. Gárur í geisluninni eru eins og hljóðbylgjur sem berast um alheiminn, segir Mark Whittle, sem fer fyrir stjörnufræðingunum. Á fyrstu milljón árum alheimsins breyttist „geimtónlistin“ úr dúr í moll.

Prófessor Whittle sagði í viðtali við vef BBC að þessi rannsókn væri í raun sáraeinföld og hann undraðist að hún hefði ekki verið gerð fyrr. Eftir að hafa hlustað á geimtónlistina eða e.t.v. nið aldanna þætti honum alheimurinn lélegt hljóðfæri. Umrædd hljóð er ekki hægt að nema með mannlegu eyra.

Samkvæmt rannsókninni hefur Stóri hvellur orðið í algjörri þögn en þegar alheimurinn tók að þenjast út tóku hljóðbylgjurnar að myndast. Prófessor Whittle segist sannfærður um mikilvægi niðurstaðnanna vegna rannsókna á þróun alheimsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka