Bandarískir biskupar hvattir til að biðjast afsökunar

V. Gene Robinson, biskup í New Hampshire, er fyrir miðri …
V. Gene Robinson, biskup í New Hampshire, er fyrir miðri mynd. Robinson, sem er samkynhneigður, hefur valdið miklu uppnámi innan biskupakirkjunnar. AP

Enska biskupakirkjan hefur hvatt leiðtoga kirkjunnar í Bandaríkjunum til að biðjast afsökunar á því að hafa vígt samkynhneigðan prest til embættis biskups í nóvember á síðasta ári. Vígslan olli miklum deilum innan biskipakirkjunnar víða um heim og er enn talin hætta á að kirkjan klofni vegna málsins.

Hvatningin kemur fram í skýrslu svonefndrar Lambeth-nefndar sem sett var á stofn innan biskupakirkjunnar eftir að Gene Robinson var vígður biskup í New Hampshire í Bandaríkjunum. Í skýrslunni er einnig, að sögn BBC, mælst til þess að samkynheigðir prestar verði ekki vígðir biskupar þar til niðurstaða er fengin um slík mál innan kirkjunnar.

Í skýrslunni er hvatt til samstöðu innan kirkjunnar er jafnframt er viðurkennt að djúpstæður ágreiningur sé innan hennar. Robin Eames, biskup á Írlandi og formaður nefndarinnar, segir í niðurstöðukafla skýrslunnar: „Það er áfram yfirvofandi hætta á að við munum ekki kjósa að ganga saman."

Í skýrslunni er þess krafist, að bandaríska kirkjudeildin skýri hvers vegna maður, sem sé í sambúð með einstaklingi af sama kyni, sé talinn hæfur til að leiða flokk Krists. Segir að sú skýring verði að byggjast á guðspjöllum Biblíunnar.

Margir íhaldssamir prestar í biskupakirkjunni telja, að Biblían fordæmi með skýrum hætti samkynhneigð og afrískir kirkjuleiðtogar hafa einnig komið með menningarsöguleg rök gegn því að samkynhneigðir prestar geti orðið biskupar.

Í skýrslunni er þess krafist að biskuparnir 50, sem voru viðstaddir vígslu Gene Robinsons í nóvember, biðjist afsökunar en ekki er farið fram á að þeim verði vísað úr kirkjunni. Innan kirkjunnar hefur hins vegar komið upp krafa um að bandarísku kirkjudeildinni verði vikið úr heimssambandi biskupakirkjunnar.

Alls eru um 70 milljónir manna skírðir til biskupakirkjunnar um allan heim, þar af eru 26 milljónir manna í Bretlandi og 2,5 milljónir í Bandaríkjunum. 17,5 milljónir manna eru í biskupakirkjunni í Nígeríu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert