Heilsa Arafats sögð afar slæm

Ahmed Qureia, forsætisráðherra Palestínumanna, t.h., og Mahmud Abbas, fyrirrennari hans, …
Ahmed Qureia, forsætisráðherra Palestínumanna, t.h., og Mahmud Abbas, fyrirrennari hans, yfirgefa höfuðstöðvar Arafats í Ramallah í kvöld. AP

Palestínskir embættismenn segja að Yasser Arafat, forseti heimastjórnar Palestínumanna, hafi hnigið niður síðdegis í dag og verið meðvitundarlaus í um 10 mínútur. Heilsa hans sé enn afar slæm. Hópur jórdanskra lækna var kvaddur í höfuðstöðvar Arafats í kvöld og heimastjórnin útnefndi þrjá háttsetta embættismenn, þar á meðal Ahmed Qureia, forsætisráðherra, til að taka við skyldum Arafats þar til hann nær sér aftur.

Hópar háttsettra palestínskra embættismanna komu í höfuðstöðvar Arafats í kvöld og ísraelskir öryggislögreglumenn sögðu að von væri á Suha, konu Arafats, til Ramallah á morgun en Suha dvelst í Frakklandi.

Arafat, sem er 75 ára, var að snæða súpu á fundi með Qureia, Mahmoud Abbas, fyrrverandi forsætisráðherra og embættismanninum Yasser Abed Rabbo milli klukkan 20 og 21 í kvöld að þarlendum tíma, þegar hann kastaði skyndilega upp. Arafat var fluttur í sjúkraskýli þar sem hann missti meðvitund.

Arafat, sem verið hefur í einangrun í Ramallah í nærri 3 ár, hefur verið veikur síðasta hálfa mánuðinn en aðstoðarmenn hans segja að hann hafi fengið inflúensu. Ísraelskir embættismenn veltu því fyrir sér hvort Arafat kynni að þjást af krabbameini í maga en læknar Arafats sögðu í dag að blóðrannsókn og vefjarannsókn sýndu að svo væri ekki.

Palestínskir embættismenn óskuðu í kvöld eftir því að Ísraelsmenn leyfðu jórdönskum sérfræðingum að koma til Ramallah og er von á þeim á morgun. Segja ísraelskir embættismenn að Ariel Sharon hafi fyrirskipað að Arafat fengi þá læknisþjónustu sem þörf væri á og einnig að honum yrði leyft að leita sér lækninga hvar í heiminum sem hann kysi.

Arafat hefur ekki yfirgefið höfuðstöðvar sínar í Ramallah frá því snemma árs 2002 af ótta við að ísraelskar hersveitir taki hann höndum. Ísraelsmenn, sem saka Arafat um að ýta undir ofbeldisverk Palestínumanna gegn Ísrael, sögðu fyrr í vikunni að Arafat væri frjálst að yfirgefa höfuðstöðvarnar og jafnvel ferðast til útlanda en þeir gætu ekki tryggt að hann fengi að snúa aftur heim.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert