Erkibiskup í Zimbabwe hvetur til friðsamlegrar uppreisnar gegn Mugabe

Stuðningsmenn stjórnarandstæðingsins Tsvangirais á útifundi í gær.
Stuðningsmenn stjórnarandstæðingsins Tsvangirais á útifundi í gær. AP

Þekktur kirkjuleiðtogi í Zimbabwe hvetur til friðsamlegrar uppreisnar í landinu til þess að koma Robert Mugabe forseta frá völdum. Kemur þetta fram í viðtali við hann í suður-afrísku dagblaði í dag. Hann heldur því ennfremur fram, að þegar sé búið að ganga frá úrslitunum í þingkosningum sem fram fara á fimmtudaginn.

Pius Ncube, erkibiskup rómversk-kaþólsku kirkjunnar í borginni Bulawayo í Zimbabwe, segir m.a. í viðtalinu: „Ég vona að fólk verði svo raunsætt að það skipuleggi hreyfingu gegn stjórnvöldum og hreki [Mugabe] frá völdum án ofbeldisaðgerða í almennri uppreisn.“

„Fólk hefur sýnt þessari ríkisstjórn of mikla linkind. Fólk ætti að telja í sig dálítinn kjark og rísa upp gegn honum og hrekja hann á brott.“

Mugabe er fyrrverandi skæruliðaleiðtogi og hefur verið leiðtogi Zimbabwe síðan stjórnartíð hvítra lauk í landinu 1980. Útlit er fyrir að flokkur hans sigri í kosningunum á fimmtudaginn, en mannréttindasamtök segja ógnarstjórn hans undanfarin ár og strangar lagasetningar þýða að í raun séu kosningarnar ómarktækar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert