Lögregla ræðst inn í íslamska æskulýðsmiðstöð í Leeds

Lögreglumenn við búðina.
Lögreglumenn við búðina. AP

Lögregla réðst inn í íslamska búð og fræðamiðstöð fyrir ungt fólk í borginni Leeds á Englandi í dag. Búðin er örstutt frá heimilum að minnsta kosti tveggja mannanna sem gerðu árásirnar í London í síðustu viku.

Lögregla umkringdi Iqra fræðamistöðina í Beeston hverfi í norðurhluta Leeds og gerði svo húsleit í henni. Lagt var hald á tölvubúnað og annað efni. Í búðinni fást íslamskar bækur og mynddiskar auk þess sem þar er nokkurt æskulýðsstarf.

Múslimaleiðtogar segja að mennirnir ungu hafi orðið fyrir áhrifum af lesefni sem boðar öfgahyggju og ef til vill hitt aðra unga öfgamenn í æskulýðsmiðstöðvum og bókabúðum. Ekki er ljóst hvort mennirnir tengist þessari ákveðnu búð.

Þá sagði íslamskur fræðimaður í Leeds að þremur tilræðismannanna hefði verið bannað að koma í þrjár moskur í þessum borgarhluta. Razaq Raj, kennari við Leeds Metropolitan háskólann, sagði að hann vissi um bannið en að hann vissi ekki hvers vegna því hefði verið komið á.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka