Fundinn sekur um að hafa lagt á ráðin um að myrða Bush

Reuters

Alríkisdómstóll í Bandaríkjunum fann í dag 24 ára Bandaríkjamann, Ahmed Omar Abu Ali, sekan um aðild að hryðjuverkasamtökunum al-Qaeda og samsæri um að ráða George W. Bush Bandaríkjaforseta af dögum. Kviðdómur hafnaði fullyrðingu verjenda mannsins um að yfirvöld í Sádí-Arabíu hafi beitt hann pyntingum til að knýja fram játningu. Maðurinn á yfir höfði sér ævilanga fangelsisvist.

Abu Ali er bandarísku ríkisborgari af jórdönsku bergi brotinn. Hann ólst upp í Virginíu. Hann var handtekinn í Medina-háskóla í Sádí-Arabíu í júní 2003. Skömmu eftir handtökuna játaði hann að hafa gengið til liðs við al-Qaeda og rætt við liðsmenn samtakanna um ýmsar hryðjuverkaáætlanir, þar á meðal að sjá sjálfur um að ráða Bush af dögum og gerast leiðtogi al-Qaeda-hóps í Bandaríkjunum.

Verjendur Abu Alis héldu því fram að sádí-arabíska leyniþjónustan, Mubahith, hefði pyntað hann. Það tók kviðdóm tvo og hálfan dag að kveða upp úrskurð.

Ahmed Omar Abu Ali.
Ahmed Omar Abu Ali. AP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert