Segir hæsta hús heims geta leitt til fjölgunar jarðskjálfta

Hæsti skýjakljúfur í heimi, Taipei 101, í höfuðborg Taívans.
Hæsti skýjakljúfur í heimi, Taipei 101, í höfuðborg Taívans. Reuters

Þunginn af hæsta skýjakljúfi heims, sem stendur í Taipei, höfuðborg Taívan, og er sérstaklega hannaður til að standast jarðskjálfta sem þar eru tíðir, kann að valda því að fjöldi skjálfta fer vaxandi, segir í grein taívansks jarðskjálftafræðings í vísindatímariti.

Í grein Lin Cheng-hornq, sem er jarðskjálftafræðingur við Taiwan-háskóla í Taipei, segir að 700.000 tonna þrýstingur hússins, sem er 101 hæð og 508 metrar, kunni að valda aukinni skjálftavirkni undir höfuðborginni og næsta nágrenni. Vera kunni að húsið standi á misgengi.

Grein Lins birtist á vef bandaríska vísindatímaritsins Geophysical Research Letters.

Veðurstofa Taiwans sagði aftur á móti í dag, að það eina ár sem liðið sé frá því húsið var reist sé of stuttur tími til að hægt sé að segja til um hugsanleg áhrif hússins á skjálftavirkni.

Nærri toppi skýjakljúfsins hangir 733 tonna kúla sem ætlað er að vernda hann með því að skapa mótvægi gegn kröftum jarðskjálfta og vinds.

Jarðskjálftar eru tíðir á Taiwan. Þeir valda sjaldnast manntjóni eða skemmdum, en í september 1999 varð 7,6 stiga skjálfti á eynni miðri og fórust í honum yfir 2.300 manns.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert