Risasekt Apple í Evrópu

Evrópusambandið hefur skellt sekt upp á 1,8 milljarð evra á …
Evrópusambandið hefur skellt sekt upp á 1,8 milljarð evra á Apple vegna samkeppnisbrota fyrirtækisins. Hafði Spotify kvartað yfir viðskiptaháttum Apple og tók ESB undir þá skoðun streymisþjónustunnar. AFP/Lionel Bonaventure

Evrópusambandið hefur sektað bandaríska tæknifyrirtækið Apple um 1,8 milljarða evra, eða sem samsvarar um 276 milljörðum íslenskra króna fyrir brot á Evrópulögum. Er Apple sagt hafa komið í veg fyrir að tónlistarveitur gætu upplýst notendur um áskriftaleiðir fyrir utan App store.

Fyrstu viðbrögð Apple voru að fyrirtækið myndi áfrýja niðurstöðunni, en þetta er fyrsta sektin vegna samkeppnislagabrota sem fyrirtækinu hefur verið gert að greiða af Evrópusambandinu. Árið 2020 sektuðu sam­keppn­is­yf­ir­völd í Frakklandi hins veg­ar Apple um 1,1 millj­arð evra, sem svar­ar til 166 millj­arða króna, fyr­ir brot á sam­keppn­is­lög­um. Brot­in snéru að viðskipta­hátt­um Apple í garð dreif­ing­araðila. Eft­ir áfrýj­un máls­ins var upp­hæðin lækkuð niður í 372 millj­ón­ir evra, sem er um 55 millj­arðar króna.

Skoðun Evrópusambandsins hófst eftir kvörtun frá sænsku tónlistarveitunni Spotify. Sneri skoðunin að því hvort Apple hafi hindrað for­rit í að upp­lýsa iP­ho­ne-not­end­ur um ódýr­ari val­kosti, utan App Store, sem veita aðgang að tón­list­ar­áskrift­um.

Í niðurstöðu framkvæmdastjórnar ESB kom fram að háttsemi Apple væri ólögleg undir reglum sambandsins og að hún hafi varað í tæplega áratug. Með því hafi Apple látið notendur greiða hærra verð fyrir streymisáskriftir vegna hárra gjalda sem Apple leggur á framleiðendur forrita og er þar með komið áfram á neytendur.

Apple telur að ESB hafi komist að niðurstöðunni án þess að sýna fram á að neytendur hafi orðið fyrir skaða og horft hafi verið fram hjá rökum fyrirtækisins um að streymismarkaðurinn sé mikill samkeppnismarkaður sem stækki ört.

Gagnrýnendur hafa bent á að þrátt fyrir háa sekt, þá sé hún ekki há þegar horft sé til tekna Apple, en á síðustu þremur mánuðum síðasta árs hagnaðist fyrirtækið um 33,92 milljarða dala.

Áður hafði verið talið að sekt ESB yrði um 500 milljónir evra, en lokaniðurstaða sambandsins var að hækka hana umtalsvert miðað við þær fréttir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert