Verkfalli starfsfólks almenningssamgangna í New York lokið

Roger Toussaint ræðir við fréttamenn fyrir utan höfuðstöðvar TWU í …
Roger Toussaint ræðir við fréttamenn fyrir utan höfuðstöðvar TWU í dag. Reuters

Þriggja daga allsherjarverkfalli starfsfólks í almenningssamgöngum í New York lauk í dag eftir að forystu menn stéttarfélags þess - sem áttu yfir höfði sér síhækkandi sektir, hugsanlega fangelsisdóma og reiði milljóna manna - samþykktu að störf skyldu hafin á ný þrátt fyrir að ekki hafi enn náðst nýr kjarasamningur.

Forystumenn stéttarfélagsins (TWU) tilkynntu þetta fyrir utan höfuðstöðvar þess í dag. Sögðu þeir að starfsfólkið myndi snúa aftur til vinnu frá og með næstu vakt. Samþykkt hafi verið með yfirgnæfandi meirihluta að binda enda á verkfallið og hefja á ný kjaraviðræður við samgönguyfirvöld (MTA).

Ekki er ljóst hvenær þjónusta jarðlesta og strætisvagna hefst á ný, en talsmenn MTA segja að það taki að minnsta kosti hálfan sólarhring að koma öllu í gang.

Samningaviðræður stóðu í alla nótt. Tilkynnt var um samkomulag nokkrum mínútum áður en Roger Toussaint, forseti TWU, átti að mæta ásamt tveim nánustu aðstoðarmönnum sínum fyrir rétt í Brooklyn og svara til saka fyrir að halda verkfallinu til streitu þvert á lögbann.

Helsti ásteytingarsteinninn í kjaraviðræðum deiluaðila hefur verið tillaga um að hækka greiðslur nýráðins starfsfólks í lífeyrissjóð úr tveim prósentum í sex. Hefur TWU harðneitað að fallast á þetta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert