Sérfræðingar segja markaðssetningu sætinda stuðla að offitu barna

Lokkandi uppstillingar í stórmörkuðum, litríkar sjónvarpsauglýsingar og hvatningar frá frægu fólki leiða börn til lífshátta sem auka hættu á offitu, og því ætti þetta að vera bannað, að því er næringarfræðingar sögðu á ráðstefnu sem nú stendur í Sydney í Ástralíu.

Milljónir barna sitja daglega undir holskeflu auglýsinga á netinu, í sjónvarpi og tímaritum þar sem þau eru hvött til að borða orkuríka en næringarsnauða fæðu, og er þetta ein orsökin fyrir vaxandi offitu meðal barna, sagði Gerard Hastings við Stirling-háskóla í Skotlandi.

„Nú liggja fyrir skýrar vísbendingar um ... að það eru tengsl á milli markaðssetningar og offitu barna,“ sagði Hastings, og vitnaði máli sínu til stuðnings í tölur sem sýndu að í þeim löndum þar sem mest er um matvælaauglýsingar sem beint er að börnum - Ástralíu, Bandaríkjunum og Bretlandi - er líka hæst tíðni offitu barna.

Hastings tók í sama streng og fleiri vísindamenn sem segja að setja eigi nýjar reglur um auglýsingar á feitum og sykurríkum matvælum sem beint er til barna. „Það ætti að vernda börn fyrir lævíslegum markaðssetningaraðferðum,“ sagði í yfirlýsingu frá Alþjóðlega offituátakshópnum, en í honum eru vísindamenn og heilbrigðisstarfsfólk frá um 50 löndum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert