Réttritunarvefurinn opnaður

Menntamálaráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, mun í dag klukkan 14 opna formlega námsvefinn Réttritun.is, sem kennir stafsetningu og vélritun með gagnvirkum æfingum. Höfundar vefsins segjast telja að grundvöllur sé fyrir „fyrirtæki sem sérhæfir sig í fyrsta flokks hugbúnaðargerð fyrir skólakerfið og þá sem tengjast námi og fræðslu með einum eða öðrum hætti“, eins og segir í kynningarefni um vefinn.

Höfundarnir eru þeir Anton Karl Ingason, sem starfað hefur við hugbúnaðargerð hjá ýmsum fyrirtækjum og kennt við Verzlunarskóla Íslands, og Skúli Bernhard Jóhannsson, sem er að ljúka prófi í rafmagns- og tölvuverkfræði og hefja meistaranám í hugbúnaðarverkfræði við HÍ.

Þeir segja m.a. að réttritunarvefurinn geti sparað kennurum talsverða vinnu, með því að ekki þurfi að lesa upp æfingar og merkja í handskrifuð verkefni nemenda. Einnig telja þeir vefinn geta nýst þeim sem kljást við dyslexíu og þeim sem hafi annað móðurmál en íslensku.

Vefurinn verður öllum aðgengilegur eftir klukkan 14 í dag, og allt efni á honum er ókeypis. Aftur á móti segja Anton og Skúli að hugmyndin sé að selja ýmsa þjónustu tengda vefnum.

Réttritun.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert